Umfjöllun og viðtöl: Ísland 9-0 Liechtenstein | Stórsigur hjá strákunum okkar

Árni Konráð Árnason skrifar
Kristian Nökkvi skoraði tvö mörk í dag, þar á meðal eitt úr vítaspyrnu.
Kristian Nökkvi skoraði tvö mörk í dag, þar á meðal eitt úr vítaspyrnu. Tjörvi Týr

U-21 landslið Íslands vann stórsigur í kvöld þegar að liðið fékk Liechtenstein í heimsókn í Víkina í kvöld. Ísland gerði hvorki né minna en 9 mörk í leiknum og hélt markinu sínu hreinu. Hremmingar Liechtenstein halda áfram, en þeir hafa nú fengið á sig 54 mörk og skorað 0 í riðlinum. Þetta var jafnframt næststærsta tap Liechtenstein í riðlinum til þessa.

Kristian Nökkvi braut ísinn strax á 3. mínútu eftir stoðsendingu frá fyrirliðanum, Brynjólfi Willumsson. Brynjólfur vippaði boltanum yfir varnarmenn Liechtenstein og náði Kristian að gera afar vel í að halda þeim frá sér og setti boltann alveg út við stöngina, 1-0 Ísland.

Einungis mínútu seinna tekur Andri Fannar hornspyrnu þar sem að hann spyrnti boltanum með jörðu út í teiginn og Atli Barkarson smellti boltanum í þaknetið, þessi virtist vera beint af æfingasvæðinu og Ísland 2–0 yfir.

Það var á 10. mínútu sem að Kristall Máni hljóp upp hægri kantinn, henti varnarmanni Liechtenstein í jörðina og setti boltann fram hjá Tim Öhri í marki Liechtenstein, 3-0 Ísland.

Tíu mínútum seinna, eða á 20. mínútu leiksins skoraði Ísak Snær fjórða mark Íslands. Kristian Nökkvi keyrði upp vinstri kantinn og setti boltann fyrir markið á Ísak Snæ sem að þurfti einungis að stýra boltanum í netið. Þetta var fyrsti leikur Ísaks í byrjunarliði u-21 liðsins og afar sterk byrjun hjá honum, 4-0 Ísland.

Á 27. mínútu fékk Ísland hornspyrnu þar sem að boltinn var skallaður frá en Ísak Snær var fyrstur í knöttinn, Lukas Büchel braut hins vegar á honum og víti dæmt. Kristian Nökkvi fór á punktinn og setti Tim Öhri í vitlaus horn og kom Íslandi í 5-0.

Ísak Snær skoraði svo sitt annað mark á 33. mínútu. Hann keyrði upp eftir flott samspil og hélt varnarmanni vel frá sér, mundar síðan afar fast skot beint í fjærhornið. Frábærlega gert hjá Ísaki og sjötta mark Íslands.

Tveimur mínútum síðar eða á 35. mínútu skoraði fyrirliðinn, Brynjólfur Willumsson. Ísland hafði fengið mörg marktækifæri í þessari sókn en Brynjólfur endaði síðan á því að setja boltann inn eftir sendingu frá Kristian Nökkva. Brynjólfur var síðan aftur á ferðinni einungis tveimur mínútum seinna. Atli Barkarson átti frábæra fyrirgjöf fyrir markið þar sem að Brynjólfur, sem er stór og stæðilegur stökk hæst allra og setti boltann í markið, annað mark Brynjólfs og áttunda mark Íslands. Íslendingar létu 8 mörk duga í fyrri hálfleik.

Seinni hálfleikur byrjaði ekki ósvipaður þeim fyrri, Íslendingar sóttu linnulaust. Davíð Snorri, þjálfari u-21 liðsins ákvað að gera þrefalda breytingu og leyfa mönnum að fá mínútur. Þrír leikmenn höfðu gert tvö mörk hver og fengu þeir því að hvíla. Ísak Snær, Brynjólfur og Kristian komu út af fyrir Orra Stein, Dag Dan og Sævar Atla á 60. mínútu.

Liechtenstein féllu þó aftar í síðari hálfleik en Ísland sótti linnulaust. Allt virtist stefna í markalausan síðari hálfleik en frábær aukaspyrna Atla Barkarsonar á 82. mínútu kom Íslandi í 9-0. Ísland fékk aukaspyrnu á D-boganum á 82. mínútu þar sem að Atli Barkarson spyrnti boltanum rétt yfir vegg Liechtenstein og í hægra hornið, frábær spyrna hjá þessum flinka knattspyrnumanni og annað mark hans í leiknum. Mörkin urðu þó ekki fleiri og fer liðið með góðan sigur í næstu leiki gegn Hvíta Rússlandi og Kýpur sem verða spilaðir hérlendis 8. og 11. júní. Ísland er enn í færi til þess að komast upp úr riðlinum.

Af hverju vann Ísland? 

Markatala Liechtenstein segir allt sem segja þarf, en strákarnir stóðu sig frábærlega og skoruðu 9 mörk í dag, þar af 8 í fyrri hálfleik. Spilamennskan upp á tíu gegn slöku liði Liechtenstein sem að átti engin svör við linnulausum árásum Íslands.

Hverjir stóðu upp úr?

Brynjólfur, Ísak Snær, Kristian og Atli gerðu 2 mörk hver fyrir Ísland í dag. Spilamennskan heilt yfir hjá Íslandi var slík að allir leikmenn fá tíu í einkunn.

Hvað gekk illa?

Íslandi gekk illa að setja boltann í netið í síðari hálfleik, þrátt fyrir linnulausar sóknir. Þeir voru oft tæpir en hefðu getað nýtt færin örlítið betur.

Hvað gerist næst?

Ísland mætir Hvíta Rússlandi eftir 5 daga og síðan Kýpur einungis þremur dögum seinna, eða 11. júní. Allir leikir verða spilaðir á Víkingsvelli.

„Mjög flottir í dag“

Davíð Snorri JónassonVísir



Davíð Snorri Jónasson, landsliðsþjálfari, var ánægður með sína menn í dag

„Við töluðum um það að byrja bara mjög sterkt. Bæði það að byrja leikinn sterkt og gluggann sterkt eftir góða frammistöðu A-landsliðsins í gær og við gerðum það. Við vorum búnir að vinna í því að spila á milli lína, ákafar hreyfingar á köntum og fljótir að vinna boltann til baka. Allt þetta gekk vel og við skoruðum mörk, þannig mjög flottir í dag“ sagði Davíð Snorri þjálfari u-21 landsliðs karla í viðtali við Vísi eftir leik.

Ísland er enn í færi til þess að komast upp úr riðlinum en liðið mætir Hvíta Rússlandi og Kýpur á næstu dögum, var þetta yfirlýsingarframmistaða í dag?

„Við erum búnir að spila í þessu móti nokkuð vel, leikirnir eru búnir að vera mjög jafnir og þetta verða bara jafnir leikir. Við þurfum bara að halda áfram, það eru ákveðin atriði sem að við þurfum að halda áfram að vinna með og fínpússa það“ sagði Davíð.

Umræða hefur skapast um hvort að Ísak Snær eigi hreinlega bara að vera í A landsliðinu. Aðspurður segist Davíð fyrsti maðurinn til þess að fagna því ef að menn stíga áfram en hann sé ánægður með hópinn sinn og leikmenn alla.

„Þetta var bara fagmannleg frammistaða“

Brynjólfur Willumsson (t.v.), fagnar marki með liðsfélögum sínum í dag.Tjörvi Týr

„Mér fannst við gera þetta vel, að klára leikinn. Það var vel gert að komast 2-0 yfir eftir fyrstu 5 mínúturnar sem að er mikilvægt. Mér fannst við klára leikinn snemma og þetta var bara fagmannleg frammistaða,“ sagði Brynjólfur, fyrirliði u-21 landsliðs karla.

Brynjólfur var ánægður með sína menn í dag og er tilbúinn í næsta leik. Hvíta Rússland og Kýpur er næst á dagskrá hjá u-21 liðinu og segir Brynjólfur að það verði allt annað að gíra sig upp fyrir þá leiki.

„Við gerðum vel í dag en þetta verða allt öðruvísi leikir. Hvíta Rússland eru mjög sterkir, við tókum þá bara 1-2 á útivelli. Kýpur sýndi það þegar við fórum út og mættum þeim. Þetta verða hörkuleikir og við verðum að mæta vel gíraðir í þá leiki,“ sagði Brynjólfur

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira