Erlent

Tólf hand­teknir í Lundúnum fyrir að mót­mæla á valda­af­mæli Elísa­betar

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Tólf voru handteknir við skrúðgöngu í Lundúnum í dag í tilefni sjötíu ára valdaafmælis Elísabetar drottningar.
Tólf voru handteknir við skrúðgöngu í Lundúnum í dag í tilefni sjötíu ára valdaafmælis Elísabetar drottningar. AP Photo/David Cliff

Tólf loftslagsaðgerðasinnar voru handteknir í Lundúnum í dag fyrir að hafa valdið truflun á herskrúðgöngu í tilefni valdaafmælis Elísabetar drottningar. Aðgerðasinnarnir hlupu í veg fyrir hermennina í skrúðgöngunni áður en þeir voru handteknir.

Tugir þúsunda voru saman komnir á breiðgötunni The Mall, sem liggur að Buckingham höll, til þess að fylgjast með skrúðgöngunni. Elísabet drottning fagnar sjötíu ára valdaafmæli á þessu ári. Aðgerðasinnarnir komust fram hjá girðingum, sem settar voru upp til þess að halda aftur af mannfjöldanum, og hlupu út á breiðstrætið þar sem þeir lögðust niður í götuna fyrir framan lúðrasveit hermanna.

„Í dag höfum við handtekið tólf fyrir að hafa valdið truflun á breiðstrætinu. Handtökurnar komu í kjölfar þess að fólk reyndi að komast inn á skrúðgöngusvæðið á The Mall,“ skrifaði lögreglan í Lundúnum á Twitter í dag.

„Við viljum þakka almenningi sem klappaði fyrir lögreglumönnunum þegar þeir sneru aftur á sinn stað eftir að hafa glímt snögglega við þessa truflun.“

Samtökin Animal Rebellion, sem segist nota borgaralega óhlýðni til þess að hvetja til minni notkunar dýraafurða, lýstu því yfir að hinir handteknu aðgerðasinnar væru hluti af samtökum þeirra. 

Einn mótmæla, sem var handtekinn af lögreglu, sagði að hann vildi að konungsfjölskyldan hætti að leyfa dýrahald á landi í hennar eigu og leyfði landsvæðunum að verða villt að nýju. 

Um 1.500 hermenn taka þátt í skrúðgöngunni, sem fer fram á hverju ári á afmælisdegi drottningarinnar. Skrúðgangan var opnunaratriðið í fjögurra daga hátíðarhöldum til þess að fagna sjötíu ára valdaafmæli drottningarinnar. 

Elísabet sjálf tók þátt í skrúðgöngunni árlega til ársins 1986 og sat hún þá hest í göngunni. Árið 1981 átti sér stað heldur ógnvænlegt atvik í göngunni þegar karlmaður skaut að henni sex púðurskotum þegar hún reið hjá. Hún náði þó að halda stjórn á hestinum sínum, sem var mjög brugðið, og meiddist ekki við atvikið. Maðurinn var handtekinn. Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.