Innlent

„Drauga­gangur“ varð til þess að Guðni Th. birtist á sjón­varps­skjáum

Bjarki Sigurðsson skrifar
Hvorki Hildur Sverrisdóttir (t.v.) né Þórunn Sveinbjarnardóttir heita í raun og veru Guðni Th. Jóhannesson, þrátt fyrir að sjónvarpsútsending Alþingis hafi gefið annað í skyn.
Hvorki Hildur Sverrisdóttir (t.v.) né Þórunn Sveinbjarnardóttir heita í raun og veru Guðni Th. Jóhannesson, þrátt fyrir að sjónvarpsútsending Alþingis hafi gefið annað í skyn. Vísir

Hildur Sverrisdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, og Þórunn Sveinbjarnardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, voru báðar merktar sem Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, þegar þær voru í ræðustól í umræðum á Alþingi í dag.

Í sjónvarps- og netútsendingum frá Alþingi er alla jafna tilgreint hver stendur í pontu í hvert skipti, og fyrir hvaða flokk þeir sitja á þingi. Hildur Sverrisdóttir og Þórunn Sveinbjarnardóttir þurftu þó að sætta sig við annað nafn en sitt eigið þegar þær ávörpuðu þingið í dag.

Þórunn Sveinbjarnardóttir í ræðupúlti Alþingis í dag.Skjáskot

Nafn forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessonar, var sýnt á skjánum í staðinn fyrir nöfn þingmannanna. Þá var forsetinn sagður vera í Samfylkingunni og vera framsögumaður.

Hildur, sem var í pontu að ræða frumvarp til breytinga á almennum hegningarlögum, birti skjáskot af mistökunum á Facebook-síðu sinni. Þar segir hún það vera „ákveðinn skellur“ að hún hafi verið talin vera samfylkingarmaður og forseti Íslands. 

Í svari við fyrirspurn fréttastofu segir Þorsteinn Magnússon, varaskrifstofustjóri Alþingis, að um hafi verið að ræða smávægileg tæknivandamál. 

„Það var smá „draugagangur“ í útsendingarkerfinu okkar í dag. Það kemur fyrir að tæknin stríði okkur eins og öðrum landsmönnum, en þau nafnabrengsl sem urðu voru strax leiðrétt,“ segir Þorsteinn.

Fréttin hefur verið uppfærð.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×