Fótbolti

Ancelotti: Ég er metamaður

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Carlo Ancelotti þekkir það betur enn nokkur annar knattspyrnustjóri að vinna Meistaradeild Evrópu.
Carlo Ancelotti þekkir það betur enn nokkur annar knattspyrnustjóri að vinna Meistaradeild Evrópu. Shaun Botterill/Getty Images

Carlo Ancelotti varð í kvöld fyrsti þjálfarinn í sögunni til að vinna Meistaradeild Evrópu fjórum sinnum. Hann vann hana í tvígang með AC Milan og hefur nú unnið hana tvisvar með Real Madrid.

„Ég trúi þessu ekki. Við áttum frábært tímabil og gerðum virkilega vel,“ sagði Ancelotti eftir sigurinn gegn Liverpool í kvöld.

„Þetta var erfiður leikur og við þurftum að þjást mikið. Sérstaklega í fyrri hálfleik. En þegar allt kemur til alls þá held ég að við höfum átt skilið að vinna þessa keppni. Við erum gríðarlega ánægðir. Hvað getur maður sagt? Ég hef ekkert meira að segja en það.“

Ancelotti var svo að sjálfsögðu minntur á að hann er fyrsti og eini þjálfarinn til að vinna Meistaradeild Evrópu fjórum sinnum. Hann vildi þó ekki eigna sjálfum sér allan heiðurinn og telur sig heppinn.

„Ég er metamaður. Ég var heppinn að koma hingað á seinasta ári og eiga frábært tímabil. Þetta er magnaður klúbbur og geggjaður leikmannahópur með mikil gæði og karakter. Þetta var æðislegt tímabil.“

„Við komumst í gegnum virkilega erfiða leiki. Stuðningsmennirnir hjálpuðu okkur mikið í seinasta leik og þeir hjálpuðu okkur í kvöld. Við erum glaðir og þeir eru glaðir.“

Að lokum var Ancelotti spurður út í markvörð liðsins, Thibaut Courtois. Belginn var algjörlega magnaður í leiknum í kvöld og stjórinn átti erfitt með að finna orðin til að lýsa hans frammistöðu.

„Vá! Ótrúlegt. Ég trúi þessu ekki,“ sagði meira en kátur Ancelotti að lokum.


Tengdar fréttir

„Þegar Real Madrid spilar úrslitaleiki á vinna þeir“

Thibaut Courtois, markvörður Real Madrid, var ótvíræður maður leiksins í sigri liðsins í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu gegn Liverpool í París í kvöld. Hann var eðlilega í skýjunum að leik loknum.

Real Madrid Evrópumeistari í fjórtánda sinn

Real Madrid er Evópumeistari í fótbolta í fjórtánda sinn í sögunni eftir 1-0 sigur gegn Liverpool í úrslitaleik Meistaradeildar Evópu í París í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×