Fótbolti

Stade de France fær nýtt gras fyrir úrslitaleik Meistaradeildarinnar

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Liverpool og Real Madrid mætast í úrslitum Meistaradeildar Evrópu á glænýju grasi annað kvöld.
Liverpool og Real Madrid mætast í úrslitum Meistaradeildar Evrópu á glænýju grasi annað kvöld. Nick Potts/PA Images via Getty Images

Vallarstarfsmenn á Stade de France hafa í vikunni unnið hörðum höndum að því að leggja nýtt gras á völlinn áður en úrslitaleikur Meistaradeildar Evrópu fer þar fram annað kvöld.

Leikurinn átti upphaflega að fara fram í Sankti Pétursborg í Rússlandi, en eftir að Rússar réðust inn í Úkraínu þann 24. febrúar var ákveðið að færa leikinn til Parísar.

Grasið var ræktað í grennd við Barcelona á Spáni og flutt þaðan til höfuðborgar Frakklands. Vallarstarfsmenn á Stade de France unnu svo linnulaust í tvo sólarhringa við að leggja grasið á þennan 80.000 manna völl.

Flækjustigið við að klára þessa framkvæmd var mikið, enda voru um það bil 500 rúllur af grasi fluttar í 24 vörubílum frá Spáni til Frakklands í byrjun þessarar viku. Hver rúlla vegur á bilinu 750-1000 kg og þekur 18 fermetra.

Líklega hefði verið hægt að einfalda verkið með því að hefjast handa fyrr, en það var ekki möguleiki vegna þess að síðastliðinn laugardag var franska hljómsveitin Indochine með tónleika á vellinum.

Grasið sem áður var á vellinum var fjarlægt þann 8. maí, daginn eftir að úrslitaleikur frönsku bikarkeppninnar fór þar fram, og síðan þá hefur röð tónleika verið haldin á vellinum.

Vallarstarfsmenn á Stade de France kláruðu að leggja grasið síðastliðið miðvikudagskvöld - alla 8.800 fermetrana. Eftir það þurfti að vökva og hlúa að grasinu, sem og að mála útlínur vallarins og öllu þessu þurfti að ljúka svo liðsmenn Real Madrid og Liverpool gætu æft á vellinum í dag fyrir úrslitaleik Meistaradeildarinnar sem fram fer annað kvöld.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.