Innlent

Flestir sem bíða brottflutnings frá Nígeríu og Írak

Kjartan Kjartansson skrifar
Skrifstofa Útlendingastofnunar í Kópavogi.
Skrifstofa Útlendingastofnunar í Kópavogi. Vísir/Friðrik Þór

Tæplega tvö hundruð manns sem hefur verið synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi bíða nú brottvísunar, flestir þeirra frá Nígeríu og Írak. Flestir verða sendir til Grikklands sem afnam nýlega takmarkanir á móttöku fólks sem er vísað frá öðrum löndum.

Í upplýsingum sem Útlendingastofnun hefur tekið saman kemur fram að af þeim 197 sem bíða brottvísunar hefur 102 verið synjað um vernd við efnislega meðferð umsóknar, 29 bíða endursendingar til annars Evrópuríkis á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar og 51 bíður endursendingar til annars Evrópuríkis á grundvelli þess að njóta þar fyrir alþjóðlegrar verndar.

Fimmtán manns á listanum var gert að yfirgefa landið eftir að í ljós kom að þeir dvöldust hér ólöglega.

Nígeríumenn eru fjölmennastir þeirra sem bíða brottvísunar en þeir eru 48 talsins. Frá Írak eru 34, fimmtán eru frá Palestínu en tíu frá Pakistan.

Grikkland tekur við 44 þeirra sem bíða brottvísunar, Nígería þrjátíu, Ítalía 23, Írak þrettán og Ungverjaland tólf. 

Í tilkynningu Útlendingastofnunar kemur fram að tvær fjölskyldur séu í þeim hópi sem bíða endursendingar vegna verndar í öðru landi og á að senda til Grikklands. Ljóst sé að þeim verði ekki fylgt úr landi þar sem réttur til efnislegrar meðferðar stofnist á næstu dögum vegna þess hversu lengi þær hafa dvalið í landinu.

Því undirbúi stoðdeild ríkislögreglustjóra ekki flutning á neinum börnum eða fjölskyldum þeirra til Grikklands.

Meðalaldur þeirra sem bíða brottvísunar er 28 ár. Af þeim eru 37 átján ára eða yngri en 160 eru eldri en átján ára.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.