Fótbolti

Heimir: Við erum allt­of mikið að horfa og gleyma að dekka mennina okkar

Smári Jökull Jónsson skrifar
Heimir var þungur á brún eftir leikinn í kvöpld enda hans menn dottnir út úr Mjólkurbikarnum.
Heimir var þungur á brún eftir leikinn í kvöpld enda hans menn dottnir út úr Mjólkurbikarnum. Vísir/Hulda Margrét

„Það er áhyggjuefni að við fáum á okkur fjögur mörk eftir föst leikatriði og eitt markið er þannig að þeir unnu held ég þrjá seinni bolta í teignum áður en þeir skoruðu,“ sagði Heimir Guðjónsson þjálfari Vals eftir 6-2 tapið gegn Blikum í Mjólkurbikarnum í kvöld.

„Ég held nú að ef við gerum upp leikinn þá fannst mér við vera fínir í fyrri hálfleiknum, sýndum karakter þegar við lendum undir og skoruðum tvö góð mörk. Við fengum mikla möguleika á að skora fleiri mörk í fyrri hálfleiknum en nýttum það ekki,“ sagði Heimir í samtali við Vísi eftir leik í kvöld.

Heimir var ekki ánægður með varnarvinnu sinna manna.

„Við erum alltof mikið að horfa og gleyma að dekka mennina okkar. Við fengum svo á okkur mark eftir hornspyrnu, vorum steinsofandi. Í seinni hálfleik þá fannst mér þeir vera ofan á og það var svipað og gegn Víkingi á sunnudag.“

Eftir að Blikar komust í 3-2, snemma í síðari hálfleik, færðu Valsmenn sig framar á völlinn og það nýtti heimaliðið sér vel.

„Við náðum ekki að klára sóknirnar okkar, við þurftum að fara framar. Það er ekkert annað tækifæri þannig að við fórum og pressuðum, gerðum það ekki nógu vel og það slitnaði svolítið á milli.“

„Við vorum að hleypa þeim í hraðar sóknir og þeir nýttu sér það. Ísak (Snær Þorvaldsson) kom inn í hálfleik og við réðum illa við hann. Þeir fóru að beita löngum boltum og við réðum bara ekki við það.“

Þrátt fyrir að markatalan skipti ekki máli í bikarleikjum viðurkennir Heimir að það svíði að tapa 6-2.

„Að sjálfsögðu. Sem betur fer eigum við leik á sunnudaginn og við þurfum að byrja á grunninum. Það er eina leiðin til að vinna sig út úr vandræðum og svo verðum við bara að halda áfram.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×