Innlent

Biðlar til Framsóknar að hafa hugrekki

Kjartan Kjartansson skrifar
Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins, í borgarstjórn Reykjavíkur.
Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins, í borgarstjórn Reykjavíkur. Vísir/Ragnar

Oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík sakar bandalag Samfylkingar, Pírata og Viðreisnar um útilokanir og þvinganir. Nú reyni á Framsóknarflokkinn og aðra flokka að hafa hugrekki til að svara kröfu kjósenda um breytt stjórnmál.

Fráfarandi meirihlutaflokkar hafa óskað eftir viðræðum við Framsóknarflokkinn um meirihlutasamstarf og ætlar Einar Þorsteinsson, oddviti flokksins, að funda með sínu fólki í kvöld.

Tíðindin fara illa ofan í Hildi Björnsdóttur, oddvita sjálfstæðismanna. Hún segir niðurstöður kosninganna skýrar: meirihlutinn hafi fallið og flokkar utan sitjandi meirihluta hafi fengið nær 60% kosningu. Kjósendur hafi kallað eftir breytingum.

„Úr kjörkössunum birtist jafnframt skýrt ákall á breytt stjórnmál. Klækjastjórnmálum úr Ráðhúsi Reykjavíkur var hafnað. Nákvæmlega sömu klækjastjórnmálum og þrjóskubandalag Samfylkingar, Viðreisnar og Pírata beitir nú við meirihlutaviðræður. Bandalagið þráskallast við að halda völdum sem kjósendur vilja ekki fela þeim lengur – með útilokunum og þvingunum. Það getur tæplega talist upptaktur að farsælu samstarfi fyrir Framsóknarflokkinn,“ skrifar Hildur á Facebook.

Hún segir marga möguleika við myndun meirihluta. Flokkur hennar sé tilbúinn til samtals við alla flokka um verkefni næsta kjörtímabils.

„Nú reynir á Framsóknarflokkinn – og auðvitað alla flokka innan borgarstjórnar - að hafa hugrekkið til að svara kröfu kjósenda um breytt stjórnmál,“ skrifar Hildur.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.