Fótbolti

Ís­lendinga­lið Rosengård og Häcken enn ó­sigruð á toppnum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Guðrún Arnardóttir og stöllur hennar eru ósigraðar.
Guðrún Arnardóttir og stöllur hennar eru ósigraðar. Twitter @fotbollskanal

Guðrún Arnardóttir og stöllur hennar í meistaraliði Rosengård fara vel af stað í sænsku úrvalsdeildinni í fótbolta. Liðið vann enn einn sigurinn í kvöld og er sem stendur ósigrað á toppi deildarinnar. Häcken er einnig ósigrað en Íslendingarnir þar fengu ekki mikinn spiltíma í kvöld.

Guðrún lék að venju allan leikinn er Rosengård vann 2-0 sigur á Örebro. Berglind Rós Ágústsdóttir spilaði allan leikinn í liði gestanna.

Diljá Ýr Zomers spilaði 18 mínútur er Häcken vann 3-1 sigur á Kalmar. Agla María Albertsdóttir sat allan leikinn á varamannabekk Häcken en Hallbera Guðný Gísladóttir var ekki í leikmannahóp Kalmar.

Amanda Andradóttir spilaði 21 mínútu er Kristianstad lagði Hammarby á útivelli, lokatölur 0-2. Amanda kom inn á fyrir Delaney Pridham en hún raðaði inn mörkum fyrir ÍBV hér á landi síðasta sumar. Emelía Óskarsdóttir sat allan tímann á bekknum hjá Kristianstad.

Rosengård er á toppi deildarinnar með 21 stig eftir níu umferðir líkt og Häcken. Guðrún og félagar þó með betri markatölu. Kristianstad er í 6. sæti með 15 stig og Örebro í 9. sæti með 12 stig. Kalmar er svo í 13. sæti – fallsæti – með aðeins sex stig eftir 9 leiki.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.