Fótbolti

Svava Rós skoraði tvö er Brann fór á toppinn

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Svava Rós og stöllur skoruðu 10 í dag.
Svava Rós og stöllur skoruðu 10 í dag. Brann

Svava Rós Guðmundsdóttir skoraði tvívegis er Brann vann 10-0 stórsigur á Åvaldsnes í norsku úrvalsdeildinni í fótbolta. Í Svíþjóð voru íslenskir bakverðir í eldlínunni.

Svava Rós spilaði 71 mínútu er Brann gjörsigraði gestina frá Åvaldsnes í dag. Skoraði íslenski framherjinn tvívegis, á 35. og 51. mínútu leiksins. Staðan var 8-0 er Svava Rós var tekin af velli en liðsfélagar hennar skoruðu tvö mörk áður en leikurinn kláraðist.

Ótrúlegur 10-0 staðreynd og Brann komið á topp deildarinnar með 25 stig að loknum níu leikjum. Ingibjörg Sigurðardóttir og stöllur hennar í Vålerenga geta jafnað Brann að stigum en þær eiga leik til góða.

Í Svíþjóð hafði Valgeir Lunddal Friðriksson betur gegn Davíð Kristjáni Ólafssyni er Häcken vann 3-1 sigur á Kalmar. Valgeir Lunddal spilaði allan leikinn í hægri bakverði Häcken á meðan Davíð Kristján var í vinstri bakverði gestanna.

Þá kom Ari Freyr Skúlason inn af varamannabekk Norrköping undir lokin í 5-1 sigri á Sundsvall.

Häcken er í 3. sæti með 17 stig, tveimur minna en topplið AIK sem hefur leikið leik meira. Norrköping er í 6. sæti með 13 stig og Kalmar í 9. sæti með 12 stig.

Í sænsku úrvalsdeildinni kvenna megin nældi Hlín Eiríksdóttir sér í gult spjald er Piteå tapaði 2-1 á útivelli gegn Vittsjö. Piteå er í 6. sæti með 13 stig eftir níu leiki.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.