Fótbolti

Haaland skoraði í kveðjuleiknum | Alfreð kom inná í sigri

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Erling Braut Haaland þakkar stuðningsmönnum Dortmund fyrir sig.
Erling Braut Haaland þakkar stuðningsmönnum Dortmund fyrir sig. Lars Baron/Getty Images

Lokaumferð þýsku úrvalsdeildarinnar fór fram í dag þegar níu leikir voru spilaðir á sama tíma. Norski framherjinn Erling Braut Haaland skoraði í kveðjuleik sínum er Dortmund vann 2-1 endurkomusigur gegn Hertha Berlin og Alfreð Finnbogason kom inn af varamannabekknum í 2-1 sigri Augsbyrg gegn Greuther Fürth.

Áður en flautað var til leiks fék Erling Braut Haaland tækifæri til að kveðja stuðningsmenn Dortmund, en eins og frægt er orðið er stjörnuframherjinn á leið til Manchester City á næsta tímabili.

Heimamenn í Dortmund komu sér þó í vandræði snemma leiks þegar Dan-Axel Zagadou braut á Ishak Belfodil innan vítateigs. Belfodil fór sjálfur á punktinn og skoraði af miklu öryggi.

Þetta reyndist eina mark fyrri hálfleiksins og staðan var því 0-1 þegar gengið var til búningsherbegja.

Heimamenn fengu svo sjálfir vítaspyrnu þegar um 25 mínútur voru til leiksloka þegar Marvin Plattenhardt handlék knöttinn innan vítateigs. Norðmaðurinn Erling Braut Haaland fór að sjálfsögðu á punktinn og setti boltann á mitt markið. Marcel Lotka skutlaði sér til hægri og staðan því orðin jöfn.

Það var svo ungstirnið Youssoufa Moukoko sem tryggði heimamönnum sigurinn með marki þegar um fimm mínútur lifðu leiks. Niðurstaðan varð því 2-1 sigur Dortmund, en liðið hafnar í öðru sæti þýsku úrvalsdeildarinnar með 69 stig.

Þá spilaði Alfreð Finnbogason seinustu tuttugu mínúturnar í 2-1 sigri Augsburg gegn Greuther Fürth. Alfreð og félagar höfnuðu í 14. sæti deildarinnar með 38 stig, fimm stigum fyrir ofan fallsvæðið, en Greuther Fürth rekur lestina á botninum með 18 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×