Innlent

Hvetur fólk til að kjósa með innsæinu

Samúel Karl Ólason skrifar
Dóra Björt á kjörstað í dag.
Dóra Björt á kjörstað í dag. Vísir/Bebbý

Dóra Björt Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi og oddviti Pírata í borginni, segir kosningabaráttuna hafa verið skemmtilega og einstakan tíma í sínu lífi. Hún eignaðist barn fyrir tveimur vikum.

Hún mætti á kjörstað í Ráðhúsinu um klukkan hálf þrjú í dag og var barnið með í fyrsta göngutúr þess.

„Dagurinn leggst mjög vel í mig. Þetta er spennandi dagur. Það er alltaf hátíðlegt að mæta á kjörstað og taka þátt í lýðræðinu,“ sagði Dóra Björt í samtali við fréttastofu.

Píratar hafa komið vel út í skoðanakönnunum og Dóra Björt segir það mjög ánægjulegt að finna fyrir þessum meðbyr. Það skipti þó máli að fólk mæti og kjósi.

„Ef þú mætir ekki á kjörstað, þá mun einhver annar kjósa og velja fyrir þig,“ sagði hún og hvatti fólk til að kjósa með innsæinu.

Spurð út í það hvað gerist ef meirihlutinn falli og hverjum Píratar séu tilbúnir til að starfa með, sagði Dóra Björt flokkinn tilbúinn til að starfa með öllum þeim sem væru tilbúnir til að vinna að baráttumálum Pírata. Eitt þeirra helsta baráttumál væri að berjast gegn spillingu.

„Við getum bara unnið með þeim sem eru trúverðugir í því samhengi og því höfum við útilokað Sjálfstæðisflokkinn, einn flokka í rauninni,“ sagði Dóra Björt. „Öðrum getum við örugglega fundið einhvern samflöt með.“

Reynist Píratar sigurvegarar þessa kosninga sagðist Dóra Björt tilbúin til að axla þá ábyrgð að taka að sér embætti borgarstjóra.


Tengdar fréttir

Mikilvægt að fella meirihlutann

Ómar Már Jónsson, oddviti Miðflokksins í borginni, segir flokkinn á mikilli siglingu og vonast til þess að hægt verði að fella meirihlutann. Hann segir mikilvægt að setja væntingar, óskir og þarfir íbúa í fyrsta sæti.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.