Lífið

Fólkið sem syngur á bak við tjöldin í ís­lenska at­riðinu

Eiður Þór Árnason skrifar
Zoë Ruth Erwen og Gísli Gunnar Didriksen Guðmundsson eru fólkið á bak við tjöldin.
Zoë Ruth Erwen og Gísli Gunnar Didriksen Guðmundsson eru fólkið á bak við tjöldin. Vísir

Eurovisionborgin Tórínó á Ítalíu er að fyllast þessa dagana af íslenskum vinum, aðstandendum og aðdáendum Systra sem vilja freista þess að fylgjast með íslenska atriðinu á laugardag.

En það eru ekki bara Sigga, Beta, Elín og Eyþór sem bera nú vonir og væntingar íslensku þjóðarinnar á herðunum sér heldur njóta þau öflugs stuðnings frá bakraddasöngvurunum Zoë Ruth Erwen og Gísla Gunnari Didriksen Guðmundssyni.

Aðspurður um það hvernig honum leið þegar í ljós kom að Ísland kæmist upp úr undankeppninni á þriðjudag segir Gísli það hafa verið ólýsanlega tilfinningu.

„Maður tjúllast pínu. Maður hættir að fúnkera sem alvöru manneskja í fjórar sekúndur.“

Niðurstaðan hafði sömuleiðis mikil áhrif á Zoë: „Ég pissaði aðeins í mig. En bara pínulítið,“ segir hún létt í bragði.

Gísla og Zoë er hvergi að finna á sviðinu á meðan flutningur Siggu, Betu, Elínar fer fram. Á meðan eru þau staðsett í litlum hljóðeinangruðum klefa sem sem er staðsettur baksviðs. Gísli segir klefann vera í mesta lagi fjóra fermetra að stærð og þar sé stór skjár sem þau noti til sjá hvað fer fram á sviðinu.

„Það er rétt nóg pláss til að dansa svo það er allt í lagi. Við reynum að líkja eftir hreyfingum stelpnanna á sviðinu,“ segir Zoë.

„Pressan er svo lítil á okkur, þó okkar þáttur sé kannski mikilvægur. Við kunnum okkar hlut og það eina sem við þurfum að gera er að njóta og leyfa þeim að skína eins og þær gera,“ segir Gísli að lokum.


Tengdar fréttir

Fjölskyldurnar mættar út til Tórínó

Íslenski keppnishópurinn fór út að borða í gærkvöldi í Tórínó. Hópurinn í kringum Systur hérna úti hefur stækkað töluvert frá því að þau mættu til Ítalíu. 
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.