Fótbolti

Zlatan getur bara æft einu sinni í viku

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Zlatan Ibrahimovic hefur ekki skorað deildarmark síðan í byrjun janúar eða undanfarna fjóra mánuði.
Zlatan Ibrahimovic hefur ekki skorað deildarmark síðan í byrjun janúar eða undanfarna fjóra mánuði. EPA-EFE/MATTEO BAZZI

Það lítur út fyrir að líkami Zlatan Ibrahimovic ráði ekki við mikið meira en að klára þetta tímabil.

Ibrahimovic glímir við langvinn meiðsli á sama tíma og lið hans er að berjast um ítalska meistaratitilinn. Nú segja fjölmiðlar á Ítalíu að sænski framherjinn geti lítið æft þessa dagana.

Sky Italia slær því upp að Ibrahimovic ráði bara við eina æfingu í viku og að hann spili líklega ekki meira en tíu mínútur í hverjum af þeim leikjum sem AC Milan á eftir.

Instagram/@sportbladet

Ibrahimovic hefur skorað 8 mörk í 22 leikjum í Seríu A á þessu tímabili. Hann hefur þó ekki skorað deildarmark síðan 9. janúar.

AC Milan tryggir sér ítalska meistaratitilinn, þá þann fyrsta í ellefu ár, ef liðið nær í fjögur stig af sex mögulegum í lokaleikjum sínum á móti Atalanta og Sassuolo. Zlatan var líka með AC Milan þegar liðið varð síðast meistari vorið 2011.

Ibrahimovic hefur verið duglegur að næla sér í meiðsli á þessari leiktíð en að þessu sinni eru það hnémeiðslin sem eru að angra hann mest.

Zlatan æfir bara með AC Milan daginn fyrir leik en heldur sig annars við það að æfa einn.

Ætli hinn fertugi Zlatan að spila áfram á næstu leiktíð þá er öruggt að hann þarf að fara í aðgerð á hné í sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×