Fótbolti

Wilshere lagði upp þegar AGF náði í stig

Hjörvar Ólafsson skrifar
Jack Wilshere minnti á sig með stoðsendingu. 
Jack Wilshere minnti á sig með stoðsendingu.  Vísir/Getty

Jack Wilshere sýndi gamalkunn tilþrif þegar hann átti stoðsendinguna í marki AGF sem gerði 1-1-jafntefli í leik sínum við SønderjyskE í keppni liðanna í neðri hluta dönsku úrvalsdeildarinnar í fótbolta karla í dag. 

Mikael Neville Anderson og Jón Dagur Þorsteinsson léku báðir allan leikinn fyrir AGF sem hefur átt í miklum vandræðum síðustu mánuðina. AGF hefur ekki náð að hafa betur í síðustu 11 deildarleikjum sínum. 

Síðasti sigur AGF í deildinni var um miðjan febrúar einmitt á móti SønderjyskE. Jón Dagur hefur síðan þá farið í og úr frystikistu hjá AGF en hann er á leið frá félaginu eftir að keppnistímabilinu lýkur. 

Atli Barkarson var ónotaður varamaður hjá SønderjyskE í leiknum. Guðmundur Þórarinsson spilaði fyrstu 81 mínútuna þegar Álaborg beið ósigur gegn Midtjylland í keppni liðanna í efri hlutanum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×