Erlent

Eyðing Amason nærri tvöfaldast á milli ára

Kjartan Kjartansson skrifar
Brunnir trjástofnar í Amasonfrumskóginum í Brasilíu. Gengið hefur verið hart á skóginn í stjórnartíð Bolsonaro forseta.
Brunnir trjástofnar í Amasonfrumskóginum í Brasilíu. Gengið hefur verið hart á skóginn í stjórnartíð Bolsonaro forseta. Vísir/EPA

Meira en þúsund ferkílómetrum af Amasonfrumskóginum var eytt í apríl, nærri tvöfalt stærra svæði en í sama mánuði í fyrra. Þetta er þriðji mánuðurinn á þessu ári sem mánaðarlegt met í skógareyðingu er slegið.

Bráðabirgðatölur brasilísku geimstofnunarinnar Inpe benda til þess að eyðing frumskógarins hafi aldrei verið meiri í aprílmánuði en nú. Eyðingin fyrstu fjóra mánuði þessa árs er jafnframt sú mesta frá því að mælingar hófust. Hún jókst um 69% frá því í fyrra og var skógurinn sem var ruddur meiri en tvöfalt umfangsmeiri að flatarmáli en New York-borg, að sögn Reuters-fréttastofunnar.

Skógareyðing hefur margfaldast í stjórnartíð Jairs Bolsonaro forseta. Hann hefur markvisst veikt umhverfisreglugerðir og hvatt til aukins landbúnaðar og námuvinnslu í Amasonfrumskóginum til að draga úr fátækt landsmanna.

Umhverfissamtökin Loftslagsathugunarstöðin segir að greinendur þeirra hafi verið furðu lostnir að eyðingin hafi aukist svo mikið á milli ára. Apríl er rigningarsamur mánuður sem gerir skógarhöggsmönnum erfitt fyrir að komast í gegnum forugan skóginn.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×