Í kjölfar opnunarhófsins dreifði gleðin sér svo um borgina þar sem rúmlega hundrað sýningar sem eru á dagskrá opnuðu víðs vegar um höfuðborgarsvæðið.
„Eftir tvö ár af óvissu og áskorunum þar sem við höfum þurft að aðlaga okkur að nýjum raunveruleika er einstaklega gleðilegt að standa hér með ykkur á þessum fallega degi, þar sem við fögnum saman opnun HönnunarMars í fjórtánda sinn - án þess að vera með grímur!“ sagði Þórey Einarsdóttir, stjórnandi hátíðarinnar.

Fyrr um daginn fór fram lykilviðburður hátíðarinnar, alþjóðlega ráðstefnan DesignTalks. Hún var einkar vel heppnuð og innblástur út árið fyrir gesti enda leiðtogar á sviði hönnunar og arkitektúrs sem þar stigu á svið.
Nú tekur við gleði fram á sunnudaginn 8. maí þar sem fjöldi sýningar og viðburða springa út. Leikgleði og forvitini eru einkennandi í ár en viðfangsefnin eru m.a. samskipti, framtíðarsýn, örverur, fuglar, sjálfbærni, heilsa og náttúra.
HönnunarMars 2022 fer fram 4. til 8. maí. Alla dagskránna má finna á vef hátíðarinnar.
Frítt er inn á alla viðburði fyrir utan DesignTalks ráðstefnuna í Hörpu. HönnunarMars er opinn öllum og dagskráin er fjölbreytt svo allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi.
Hér má finna alla okkar umfjöllun um HönnunarMars 2022.
Hér að neðan má sjá myndir frá opnunarhófinu í Hörpu:








