Innlent

Tæpar fimm­tíu milljónir á viku: Óttast að ný bylgja net­glæpa sé að hefjast

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Gísli Jökull Gíslason er rannsóknarlögreglumaður hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. 
Gísli Jökull Gíslason er rannsóknarlögreglumaður hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.  vísir/sigurjón

Á einni viku hafa þrjú íslensk fyrirtæki tapað samanlagt um 50 milljónum króna vegna árása netþrjóta á tölvupósthólf þeirra. Lögreglumaður hefur áhyggjur af því að slíkir glæpir séu aftur að ná sér á strik á Íslandi.

Um ára­raðir voru svo­kölluð fyrir­mæla­svik al­gengasta form net­glæpa á Ís­landi. Fyrir þremur árum hafði þó tekist að sporna við þeim með sam­stilltu á­taki og fræðslu til fyrir­tækja en nú virðast þeir aftur vera að ná sér á strik.

„Í byrjun þessarar viku og í síðustu viku fengum við inn þrjú mál þar sem við erum að horfa á heildar­tjón sem fer að nálgast fimm­tíu milljónir hjá þremur fyrir­tækjum,“ segir Gísli Jökull Gísla­son, rann­sóknar­lög­reglu­maður.

50 milljónir tapaðar á einni viku sem er stór hluti af því 800 milljóna króna heildar­tjóni sem hefur hlotist af fyrir­mæla­svikum frá upp­hafi á Ís­landi.

Fyrirtækin sjálf ábyrg fyrir eigin greiðslum

Fyrir­mæla­svik er það kallað þegar tölvu­þrjótar ná stjórn á tölvu­póst­hólfum fyrir­tækja þar sem þeir ná að grípa tölvu­pósta með reikningum og skipta út reiknings­númerum á þeim áður en þeir koma út eða inn úr póst­hólfinu. Þannig greiða fyrir­tækin gjald inn á reikning glæpa­mannanna en halda að þau séu að greiða þeim sem þau eiga í við­skiptum við.

Í nær öllum til­fellum er ó­mögu­legt að sækja peninginn til baka sem hefur verið lagður inn á rangan reikning.

„Þetta er mjög mikið tjón fyrir þann sem sendi peninginn því að það er í raun og veru á þína á­byrgð ef þú átt að greiða fyrir eitt­hvað að peningarnir fari rétta leið. Og ef þú hefur sent peningana þína, jafn­vel þó að búið sé að brjótast inn í póst­hólf við­semjanda þíns þá ert það samt þú sem að ert á­byrgur fyrir greiðslunni - að hún berist á réttan stað,“ segir Gísli Jökull.

Gera sumarstarfsfólk að skotmarki sínu

Hann telur ekki að málin þrjú tengist þrátt fyrir að þau hafi öll gerst með ó­venju stuttu milli­bili.

„Ég er búinn að skoða þessi þrjú mál og mér finnst ó­lík­legt að þetta sé sami hópurinn þarna að baki. Enda er þetta skipu­lögð glæpa­starf­semi og það eru margir mis­munandi hópar sem að standa þarna að baki,“ segir Gísli Jökull.

Hann óttast þó að þetta sé upp­hafið að nýrri bylgju slíkra net­glæpa.

„Núna bara á stuttum tíma erum við að sjá þrjú mál sem eru frekar stór og við höfum á­hyggjur af að þegar líður að sumri að það jafn­vel muni aukast því að þeir sem eru glæpa­menn miða oft á tíma­bil þar sem þeir vita eða giska á að af­leysinga­fólk sjái um þessar greiðslur,“ segir Gísli Jökull.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.