Liverpool í úrslit Meistaradeildarinnar

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Liverpool er á leið í úrslit Meistaradeildar Evrópu.
Liverpool er á leið í úrslit Meistaradeildar Evrópu. Silvestre Szpylma/Quality Sport Images/Getty Images

Liverpool er á leið í úrslit Meistaradeildar Evrópu eftir 2-3 útisigur gegn Villarreal í síðari undanúrslitaleik liðanna í kvöld.

Gestirnir í Liverpool unnu fyrri leik liðanna 2-0 og því var ljóst að Villarreal átti erfitt verkefni fyrir höndum gegn einu besta liði heims um þessar mundir.

Heimamenn byrjuðu þó af miklum krafti og tóku forystuna í leiknum strax á þriðju mínútu með marki frá Boulaye Dia.

Þeir gulklæddu héldu áfram að þjarma að gestunum eftir markið og það skilaði sér á 41. mínútu þegar Francis Coquelin skallaði fyrirgjöf Etienne Capoue í netið og allt orðið jafnt í einvíginu.

Staðan var því 2-0 þegar flautað var til hálfleiks, en gestirnir frá Bítlaborginni nýttu hálfleikshléið vel í að endurstilla sig fyrir síðari hálfleikinn.

Fabinho minnkaði muninn fyrir Liverpool með marki eftir rúmlega klukkutíma leik, áður en Luis Diaz jafnaði metin fimm mínútum síðar þegar hann stangaði knöttinn á milli lappa Geronimo Rulli í marki heimamanna.

Það var svo Sadio Mané sem gerði endanlega út um einvígið þegar hann slapp einn í gegn og komst framhjá Geronimo Rulli sem fór í skógarhlaup. Mané var því kominn einn á móti marki og eftirleikurinn auðveldur.

Etienne Capoue stráði svo salti í sár sinna manna þegar hann lét reka sig af velli með sitt annað gula spjald í leiknum á 85. mínútu.

Niðurstaðan varð 2-3 sigur Liverpool, en liðið vann einvígið samanlagt 5-2 og er á leið í úrslit Meistaradeildarinnar í þriðja skipti á seinustu fimm árum. Úrslitaleikurinn fer fram þann 28. maí, en Liverpool mætir annað hvort Manchester City eða Real Madrid.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira