Fótbolti

Klopp: Liverpool hefur lært af Juve og Bayern

Atli Arason skrifar
Jurgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, ætlar ekki að vanmeta Villarreal.
Jurgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, ætlar ekki að vanmeta Villarreal. Getty Images

Jurgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, fullvissar alla að Liverpool er búið að læra af Juventus og Bayern München, að vanmeta spænska liðið Villarreal ekki.

Liðin tvö mætast í fyrri viðureign undanúrslita í Meistaradeildinni í kvöld. Liverpool sló Inter og Benfica út á leið sinni í undanúrslitin á meðan Villarreal tók Juventus og Bayern úr leik.

„Villarreal hafði smá forskot þar sem það er möguleiki að Juve og Bayern hafi vanmetið þá en ekkert slíkt gerist hjá okkur, við höfum lært það. Þeir vilja fara í úrslitaleikinn en það er jafn mikilvægt fyrir okkur,“ sagði Jurgen Klopp fyrir leikinn í kvöld.

Klopp kallar eftir því að stuðningsmenn Liverpool fjölmenni á leikinn á Anfield í kvöld og skapi svipað andrúmsloft og var gegn Barcelona í undanúrslitum Meistaradeildarinnar árið 2019.

„Við þurfum svipað andrúmsloft og frammistöðu. Liðið þarf að sýna sína bestu frammistöðu og ég þarf að sýna mína bestu frammistöðu,“ bætti Klopp við.

Villarreal og Liverpool hafa mæst tvisvar áður á stjórnartíð Klopp, það var í undanúrslitum Evrópudeildarinnar árið 2016 þar sem Liverpool hafði betur með samanlögðum 3-1 sigri á fyrsta tímabili Jurgen Klopp með liðið. Af þeim leikmönnum sem spiluðu þann leik fyrir Liverpool er bara James Milner enn þá í leikmannahóp liðsins.

Manu Trigueros, Mario Gaspar og Bruno Soriano, leikmenn Villarreal, spiluðu allir leikinn fyrir Villarreal fyrir sex árum og ættu því að þekkja vel þá stemningu sem getur myndast á Evrópukvöldi á Anfield.

Liverpool fór áfram í úrslitaleik Evrópudeildarinnar það árið þar sem liðið tapaði fyrir Sevilla, sem var þá stýrt af Unai Emery. Emery er í dag knattspyrnustjóri Villarreal.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×