Fótbolti

Benzema: Við munum töfra eitthvað fram í leiknum í Madrid

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Karim Benzema fagnar marki á móti Manchester City í gærkvöldi.
Karim Benzema fagnar marki á móti Manchester City í gærkvöldi. AP/Dave Thompson

Útlitið var oft ekki alltof bjart fyrir Karim Benzema og félaga í gærkvöldi í fyrri undanúrslitaleiknum í Meistaradeildinni á móti Manchester City.

Real liðið náði hins vegar að minnka muninn í eitt mark og það er því spennandi seinni leikur fram undan á Spáni.

Manchester City komst þrisvar tveimur mörkum yfir í leiknum, fyrst 2-0 á fyrstu ellefu mínútum leiksins, þá 3-1 og loks 4-2 en Real menn náðu að svara með mörkum í öll skiptin.

Karim Benzema skoraði tvö markanna þar á meðal markið átta mínútum fyrir leikslok sem minnkaði muninn í 4-3 sem urðu lokatölurnar.

„Það er aldrei gott að tapa leik,“ sagði Karim Benzema við Movistar eftir leikinn.

„Mikilvægast var að við gáfumst aldrei upp og héldum áfram allt til loka leiksins,“ sagði Benzema sem er nú kominn með fjórtán mörk í tíu leikjum Meistaradeildinni á leiktíðinni þar af níu mörk í útsláttarkeppninni sjálfri.

„Nú þurfum við að fara heim á Bernabeu. Við þurfum á stuðningi að halda eins og aldrei fyrr. Við munum töfra eitthvað fram í leiknum í Madrid sem er að vinna,“ sagði Benzema.

Hann hefur skorað níu mörk í síðustu fjórum leikjum sínum í Meistaradeildinni og Real liðið mun þurfa á einhverju svipuðu að halda ætli liðið að slá City út í seinni leiknum í Madrid.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×