Innlent

Þykir leitt að eineltisskýrslu hafi verið lekið

Bjarki Sigurðsson skrifar
Þorgerður Laufey er núverandi formaður Félags grunnskólakennara og sækist eftir endurkjöri.
Þorgerður Laufey er núverandi formaður Félags grunnskólakennara og sækist eftir endurkjöri. Stöð 2

Formanni Félags grunnskólakennara þykir það leitt að samskiptaskýrsla, sem flokkaði hegðun hennar gagnvart öðrum starfsmanni félagsins sem einelti, hafi lekið. Báðir aðilar málsins vilja bæta samskipti sín.

Í næstu viku hefjast formannskosningar fyrir Félag grunnskólakennara. Þrír eru í framboði, Mjöll Matthíasdóttir, kennari við Þingeyjarskóla, Pétur Vilberg Georgsson, kennari við Brekkubæjarskóla, og Þorgerður Laufey Diðriksdóttir, núverandi formaður félagsins. 

Í gærkvöldi fór fram fundur með frambjóðendunum þar sem meðlimum félagsins gafst tækifæri á að spyrja þá úr spjörunum.

Einelti á skrifstofunni

Á fundinum barst fyrirspurn um færslu sem birtist í Facebook-hóp fyrir grunnskólakennara á Íslandi þar sem fram kom að samkvæmt samskiptaskýrslu sem gerð var innan kennarasambandsins, flokkist hegðun sitjandi formanns, Þorgerðar Laufeyjar, gagnvart öðrum starfsmanni sem einelti. Samskiptin voru skoðuð af sálfræðistofu sem komst að þessari niðurstöðu.

Þorgerður svaraði fyrirspurninni um málið og sagði að henni þætti það afar leitt að skýrsla sem þessi hafi lekið enda sé hún trúnaðarmál. Hún staðfestir þó að skýrslan hafi verið gerð og útkomu hennar.

„Í þessu tilfelli, þá verður alveg að segjast eins og er, koma fram ákveðin atriði þar sem að ég hefði átt að gera betur og ég gengst við því,“ sagði Þorgerður og bætir við að vilji beggja málsaðila sé að bæta samskipti.

Baráttumál fyrir stéttina

Mjöll var næst að tjá sig um málið og sagði að henni þætti mjög leitt að frétta að samskipti innan sambandsins séu ekki í góðum farvegi.

Pétur benti á að ef það er eitthvað sem kennarar hafa barist við seinustu 30 ár þá sé það einelti og þyki það sorglegt að einhver samskipti innan kennarasambandsins sé hægt að flokka sem slíkt.

Þorgerður átti síðasta orðið í umræðunni og bað fólk um að láta dómstól götunnar ekki dæma í þessu máli.

Atkvæðagreiðsla til formanns félagsins hefst klukkan 14 næsta mánudag, 2. maí.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×