Innlent

Veiran náði í skottið á Þórólfi: „Ein sú versta pest sem ég hef nokkurn tímann fengið“

Fanndís Birna Logadóttir skrifar
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir stöðuna miklu betri en hún var fyrir aðeins örfáum vikum, þó að enn sé nokkur fjöldi að greinast daglega. 
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir stöðuna miklu betri en hún var fyrir aðeins örfáum vikum, þó að enn sé nokkur fjöldi að greinast daglega.  Vísir/Vilhelm

Töluvert færri eru nú að greinast með Covid-19 hér á landi heldur en fyrir aðeins nokkrum vikum en sóttvarnalæknir telur að veiran verði viðloðandi í einhvern tíma. Sjálfur hefur hann smitast og segir veikindin langt frá því að líkjast venjulegri flensu.

Að því er kemur fram á vef Covid-19 hafa hátt í 50 prósent Íslendinga greinst með Covid-19 frá því að faraldurinn hófst, þó raunveruleg tala sé líklega mun hærri. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hefur verið í forsvari fyrir baráttuna gegn veirunni og komst í gegnum fyrstu tvö ár faraldursins án þess að smitast.

Nýverið bættist hann þó í hóp þeirra fjölmörgu sem hafa nælt sér í veiruna skæðu. „Ég hef fengið Covid, já,“ segir Þórólfur í samtali við fréttastofu.

„Ég get sagt að þetta er ein sú versta pest sem ég hef nokkurn tímann fengið og hún hangir í manni lengi. Þannig í mínu tilfelli var þetta ekki bara eitthvað kvef,“ segir hann enn fremur aðspurður um hvort hann hafi orðið mikið veikur.

Veiran muni ná í skottið á öllum fyrr eða síðar

Það er hálf lýsandi fyrir mikla útbreiðslu veirunnar að hún hafi loksins náð í skottið á sóttvarnalækni. „Þetta nær í skottið á öllum á einhverjum tímapunkti held ég. „Ég held að það sé mjög erfitt að forðast þetta því að Covid verður með okkur áfram,“ segir Þórólfur.

Hann vísar til þess að tíðni endursmita sé að aukast og liggur það ekki fyrir hversu lengi ónæmi frá fyrra smiti endist. Samkvæmt covid.is hafa 2,2 prósent smitast tvisvar eða oftar.

„Ef að fólk heldur áfram að smitast aftur þá getur þetta verið viðloðandi og náð þeim sem ekki hafa fengið Covid. Þannig ég held að þetta verði viðloðandi í einhvern tíma,“ segir hann.

Tölurnar á covid.is ná aðeins til þeirra sem hafa farið í PCR-sýnatöku eða hraðpróf og því má áætla að töluvert fleiri hafi smitast í raun. Skjáskot/Covid.is

Staðan betri en fólk getur enn veikst

Öllum takmörkunum vegna Covid-19 var aflétt hér á landi í lok febrúar en hægt og rólega fór smitum fækkandi á næstu vikum. Nú eru um og yfir hundrað manns að greinast daglega en líklega eru þeir færri þar sem einhverjir láta heimapróf duga og fara því ekki sýnatöku.

„Það er klárlega miklu miklu minna en það var en við vitum ekki nákvæmlega hversu margir hafa smitast raunverulega af Covid, við erum að bíða eftir niðurstöðum úr þessari sameiginlegri rannsókn sem sóttvarnalæknir stóð fyrir í samvinnu við Íslenska erfðagreiningu og vonandi fáum við þær niðurstöður bara núna fljótlega,“ segir Þórólfur.

Þá er staðan á spítalanum töluvert betri en tíu liggja inni á Landspítala með Covid-19, þar af sex með virkt smit. Spítalinn er þó á óvissustigi og segir Þórólfur að alvarleg veikindi geti komið upp.

„Staðan er miklu betri, en fólk er enn að eiga við þetta og það hafa komið upp alvarleg tilfelli og mun gera það áfram,“ segir hann. „En þetta er allt annað ástand en var hérna fyrir nokkrum vikum eða mánuðum.“


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×