Innlent

Fyrirtæki kolefnisjafna sig með gróðursetningu

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Plöntur eru gróðursettar víðs vegar um landið með góðum árangri. Hér eru fallegar aspir á Laugarvatni.
Plöntur eru gróðursettar víðs vegar um landið með góðum árangri. Hér eru fallegar aspir á Laugarvatni. Magnús Hlynur Hreiðarsson

Skógræktin hefur varla undan að svara fyrirspurnum frá erlendum og innlendum fyrirtækjum, sem vilja kolefnisjafna sig með því að gróðursetja plöntur víðs vegar um landið. Með því eru fyrirtækin líka að búa sig undir að skila grænu bókhaldi eins og þeim verður skylt að gera eftir nokkur ár.

Skógrækt er alltaf að aukast á Íslandi og er mikill áhugi hjá fyrirtækjahópum, félagasamtökum og einstaklingum að fá að gróðursetja enda eru margir hafa samband við starfsmenn Skógræktarinnar til að spyrjast fyrir um þessi mál.

„Síðan eru fyrirtæki, erlend fyrirtæki, sem innlend að hafa samband og í sjálfum sér er þetta vegna þess að þau sjá sína sæng útbreidda. Það er búið að taka þá ákvörðun hér og í öðrum löndum að við ætlum að vera kolefnishlutlaus,“ segir Þröstur Eysteinsson, skógræktarstjóri og bætir við.

„Fyrirtæki sjá alveg fram á það að í framtíðinni og bara náinni framtíð, það er stutt í þetta, þá verði þeim gert að skila grænu bókhaldi, sem þarf þá að sýna fram á að þau séu kolefnishlutlaus sjálf af því að Ísland verður ekkert kolefnishlutlaust nema að allir á Íslandi séu það.“

Þröstur Eysteinsson, skógræktarstjóri, sem er ánægður og stoltur með þá athygli, sem skógrækt á Íslandi fær þegar kolefnisjöfnun er annars vegar.Magnús Hlynur Hreiðarsson

Þröstur segir mjög ánægjulegt að sjá hvað skógrækt á Íslandi er vinsæl í dag.

„Já, það er allavega mikill áhugi, við finnum fyrir því. Fólk kemur til okkar, við þurfum eiginlega ekkert að auglýsa. Skógarbændum fjölgar og fleiri og fleiri hafa áhuga og svo er fólk, sem vill leggja okkur lið við að binda kolefni og fjármagna það, það er mikill áhugi á því og þar sjá menn ýmsa möguleika. Sumir vilja græða en flestir vilja bara gera gagn,“ segir Þröstur.

Margir myndarlegir skógar eru víðs vegar um landið og þeim á eftir að fjölga með árunum.Magnús Hlynur Hreiðarsson


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×