Erlent

Minnst fimm særðust í skot­á­rás í Brook­lyn

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Fjöldi viðbragðsaðila var kallaður út vegna árásarinnar.
Fjöldi viðbragðsaðila var kallaður út vegna árásarinnar. AP Photo/John Minchillo

Minnst fimm særðust í skotárás í neðanjarðarlest í Brooklyn í New York í morgun. Lögreglan leitar enn árásarmannsins, sem talinn er klæddur í appelsínugult endurskinsvesti.

Tilkynning barst til lögreglu klukkan 8:30 í morgun að staðartíma um að skothvellir eða sprengingar hafi heyrst á lestarstöðinni á 36 stræti í Sunset Park hverfi. Þegar lögregla og slökkvilið mætti á staðinn var stöðin uppfull af reyk og var fyrst talið að sprengja hafi sprungið á stöðinni. Samkvæmt nýjustu upplýsingum telja rannsóknaraðilar að árásarmaðurinn hafi sprengt reyksprengju inni í lestinni áður en skothríðin hófst. 

Sjúkraflutningamenn tilbúnir til að taka á móti mögulegum fórnarlömbum árásarinnar.AP Photo/John Minchillo

Eins og áður sagði hæfði maðurinn minnst fimm og minnst ellefu slösuðust í ringulreiðinni sem myndaðist í árásinni. Myndband af vettvangi sýnir mannmergðina hlaupa út úr lestarvagninum, aðra haltra og greinilegur reykur sést á myndskeiðinu. Heyra má einhvern öskra að hringja þurfi í 911, neyðarlínuna. Myndir á vettvangi sýna fólk hlúa að öðrum sem særðust í árásinni á lestarstöðinni og blóðpolla á gólfinu. 

Fram kemur í frétt AP að samkvæmt upplýsingum frá heimildarmönnum innan lögreglunnar að árásarmaðurinn hafi borið gasgrímu fyrir vitum í árásinni. Svo virðist sem maðurinn hafi sprengt reyksprengju á lestarstöðinni til að valda ringulreið. 

Þá hefur lögreglan það til rannsóknar hvort sprengju hafi verið komið fyrir á stöðinni en fyrstu fregnir hermdu að ósprengd sprengja hafi fundist á vettvangi. Lögreglan hefur gefið það út á Twitter að engin sprengja hafi fundist við leit lögreglu. Þó hafi nokkrar reyksprengjur fundist að sögn Fabien Levy talsmanns borgarstjórnar. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×