Innlent

Segir upp öllu starfs­fólki Eflingar

Eiður Þór Árnason skrifar
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar.
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar. vísir/vilhelm

Sólveig Anna Jónsdóttir, sem er nýtekin aftur við sem formaður Eflingar, lagði til á stjórnarfundi félagsins í dag að öllu starfsfólki Eflingar yrði sagt upp störfum. Tillagan var lögð fram og samþykkt af átta manna meirihluta B-lista undir forystu Sólveigar Önnu.

Þetta herma heimildir fréttastofu. Uppsagnirnar eru hluti af breytingartillögu til stjórnar um umfangsmiklar skipulags- og rekstrarbreytingar á skrifstofu Eflingar og felur tillagan í sér breytingar á ráðningarkjörum allra starfsmanna. Stendur því til að segja öllum starfsmönnum Eflingar upp störfum og eiga uppsagnirnar að taka gildi um næstu mánaðamót. Samkvæmt tillögunni verða öll störf auglýst og gerð er krafa um að starfsmenn vinni uppsagnarfrestinn.

Ástæðurnar sem gefnar eru fyrir skipulagsbreytingum eru meðal annars jafnlaunavottun félagsins, nýjar starfslýsingar, hæfniviðmið og breytingar á launakerfi.

Ólga ríkir áfram innan Eflingar

Tillagan var harðlega gagnrýnd af fulltrúum minnihlutans í stjórn Eflingar. Hún var lögð fram á fyrsta starfsdegi Sólveigar Önnu með endurnýjað formannsumboð og um leið á fyrsta stjórnarfundi nýrrar stjórnar sem tók við á aðalfundi stéttarfélagsins síðasta föstudag. Samkvæmt heimildum fréttastofu mætti Sólveig Anna þó ekki til vinnu á sínum fyrsta starfsdegi og lét nægja að sitja fund stjórnar. 

Mikil ólga hefur ríkt innan Eflingar frá því að Sólveig Anna tók fyrst við sem formaður árið 2018. Náðu átökin hámarki þegar hún tilkynnti stjórn Eflingar um afsögn sína í október 2021 og vísaði til vantraustsyfirlýsingar sem starfsfólk Eflingar hafði gefið út skömmu áður. Sólveig Anna bauð sig í kjölfarið aftur fram til formanns og hafði betur í stjórnarkjöri sem lauk í febrúar.

Sólveig Anna Jónsdóttir gaf ekki kost á viðtali við vinnslu fréttarinnar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×