Fótbolti

„Vonast auðvitað til að fá einhverjar mínútur“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Selma Sól Magnúsdóttir á sautján landsleiki á ferilskránni.
Selma Sól Magnúsdóttir á sautján landsleiki á ferilskránni. vísir/Hulda Margrét

Selma Sól Magnúsdóttir er gíruð fyrir leikinn stóra gegn Tékklandi í undankeppni HM á þriðjudaginn. Með sigri í honum færist íslenska fótboltalandsliðið nær því markmiði sínu að komast á sitt fyrsta heimsmeistaramót.

„Mér líst mjög vel á leikinn. Það er góð stemmning í hópnum,“ sagði Selma í samtali við Vísi fyrir æfingu íslenska liðsins í Prag í dag.

Ísland vann 0-5 sigur á Hvíta-Rússlandi á fimmtudag í fyrri leik sínum í þessari landsleikjahrinu.

„Þetta var góður sigur og bara þrjú stig,“ sagði Selma. Hún segir að Íslendingar ætli sér það sama á þriðjudaginn: þrjú stig.

Klippa: Viðtal við Selmu Sól

„Við förum í alla leiki til að vinna. Við gerum bara okkar og vonumst eftir þremur stigum. Þær eru með sterkt lið, góðar að spila á litlu svæði og halda boltanum vel. Þetta verður hörkuleikur,“ sagði Selma.

En er hún bjartsýn að fá tækifæri í leiknum á þriðjudaginn?

„Ég vonast auðvitað til að fá einhverjar mínútur,“ svaraði Selma.

Hún gekk í raðir Rosenborg í Noregi í vetur og kann vel við sig í Þrándheimi.

„Þetta hefur verið mjög gaman hingað til og gaman þegar gengur vel,“ sagði Selma að endingu.

Viðtalið við Selmu má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×