Fótbolti

Alfons og félagar í flokk með Real Madríd

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
„Nei hættu nú alveg.“
„Nei hættu nú alveg.“ Fabio Rossi/Getty Images

Landsliðsmaðurinn Alfons Sampsted og liðsfélagar hans í norska meistaraliðinu Bodø/Glimt gerðu José Mourinho og lærisveinum hans í Róma enn einn grikkinn í gær er liðin mættust í 8-liða úrslitum Sambandsdeildar Evrópu. 

José Mourinho er þrátt fyrir mögur ár einn af sigursælustu þjálfurum þessarar aldar. Það eru ekki mörg lið sem státa af því að hafa aldrei tapað fyrir liði sem José stýrir. 

Eftir dramatískan 2-1 sigur er Bodø/Glimt komið á sama stall og Real Madríd. Eru þetta einu tvö félögin sem hafa þrívegis eða oftar mætt liði undir stjórn Mourinho en aldrei tapað. Alfons og félagar rasskelltu Rómverja í Noregi er liðin mættust í riðlakeppninni. 

Síðari leiknum lauk með jafntefli og sama niðurstaða í næstu viku þýðir að Bodø/Glimt væri komið í undanúrslit Sambandsdeildar Evrópu.

Leikirnir þrír gegn Real Madríd dreifast töluvert betur en tímabilið fræga 2003/2004 drógust Porto - þáverandi lið Mourinho - og Real saman í riðlakeppninni. Fór það svo að Real vann 3-1 í Portúgal en liðin skildu jöfn á Spáni. Sá hlær best sem síðast hlær því Porto stóð uppi sem Evrópumeistari og skömmu síðar var hinn útvaldi mættur til Chelsea.

Þriðji leikurinn var svo árið 2017 er Manchester United-lið hans mætti Real Madríd í leiknum um Ofurbikar Evrópu en þar mætast sigurvegarar Meistaradeildar Evrópu og Evrópudeildarinnar. Fór það svo að Real vann leikinn 2-1.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×