Innlent

Þjóð­minja­vörður skipaður skrif­stofu­stjóri í for­sætis­ráðu­neytinu

Atli Ísleifsson skrifar
Margrét Hallgrímsdóttir hefur gegnt stöðu þjóðminjavarðar frá árinu 2000.
Margrét Hallgrímsdóttir hefur gegnt stöðu þjóðminjavarðar frá árinu 2000.

Margrét Hallgrímsdóttir þjóðminjavörður hefur verið skipuð í embætti skrifstofustjóra á skrifstofu innri þjónustu í forsætisráðuneytinu. Margrét hefur gegnt stöðu þjóðminjavarðar frá árinu 2000.

Þetta kemur fram í tilkynningu á vef forsætisráðuneytisins. Skipað er í embættið til fimm ára en umsækjendur voru alls 23. Tveir umsækjendur drógu umsókn sína til baka á meðan á ráðningarferlinu stóð.

„Þriggja manna hæfnisnefnd mat fimm umsækjendur mjög vel hæfa til að gegna embættinu. Eftir heildarmat á gögnum málsins og viðtöl við þá umsækjendur sem metnir voru mjög vel hæfir ákvað ráðherra að skipa Margréti Hallgrímsdóttur. Margrét tekur við embættinu 1. maí nk. og mun ráðuneytisstjóri gegna skyldum skrifstofustjóra til þess tíma.

Margrét Hallgrímsdóttir er með fil.kand. gráðu í fornleifafræði og latínu frá Stokkhólmsháskóla, cand.mag. gráðu í sagnfræði frá Háskóla Íslands og meistaragráðu í opinberri stjórnsýslu frá sama skóla. Margrét hefur gegnt embætti þjóðminjavarðar frá árinu 2000 að frátöldu tímabilinu 2014-2015 þegar hún var settur skrifstofustjóri í forsætisráðuneytinu. Áður gegndi hún embætti borgarminjavarðar.

Skrifstofa innri þjónustu tók til starfa 1. apríl sl. þegar nýtt skipurit forsætisráðuneytisins tók gildi. Helstu verkefni skrifstofunnar eru rekstur og fjármál ráðuneytisins, fjárlagagerð, stoðþjónusta við aðrar skrifstofur, eigna- og gæðamál og umsjón málaskrár og skjalasafns. Þá leiðir skrifstofan umbætur og þróun í innri starfsemi ráðuneytisins,“ segir í tilkynningunni.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×