Fótbolti

Koeman tekur hollenska landsliðinu eftir HM í Katar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ronald Koeman gekk ekki vel sem þjálfari Barcelona  en fær nú annað tækifæri með hollenska landsliðinu sem gerði góða hluti undir hans stjórn á sínum tíma.
Ronald Koeman gekk ekki vel sem þjálfari Barcelona  en fær nú annað tækifæri með hollenska landsliðinu sem gerði góða hluti undir hans stjórn á sínum tíma. Getty/Pedro Salado

Hollenska knattspyrnusambandið hefur nú staðfest það að Ronald Koeman tekur aftur við hollenska landsliðinu eftir heimsmeistaramótið í Katar.

Louis van Gaal er þjálfari hollenska landsliðsins en mun hætta störfum eftir HM. Van Gaal sagði frá því á dögunum að hann sé að glíma við krabbamein.

Saminingur Koeman við hollenska sambandið er frá 2023 til 2026.

Koeman hætti sem þjálfari hollenska landsliðsins fyrir einu og hálfu ári þegar hann tók við Barcelona.

Koeman var síðan rekinn frá Barcelona eftir slakt gengi liðsins undir hans stjórn og hefur verið atvinnulaus þar til núna.

„Ég hlakka mikið til. Ég hætti ekki fyrir einu og hálfu ári síðan af því að ég var óánægður. Mér leið vel í þessu starfi, úrslitin voru góð og ég var í góðu sambandi við landsliðsmennina. Við munum núna halda því áfram,“ sagði Ronald Koeman í fréttatilkynningu frá hollenska sambandinu.

Koeman lék á sínum tíma 78 landsleiki fyrir Holland og var í Evrópumeistaraliðinu árið 1988. Hann hefur síðan þjálfað lið eins og Vitesse, Ajax, Benfica, PSV, Valencia, AZ, Feyenoord, Southampton, Everton og Barcelona eftir að ferli hans lauk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×