Fótbolti

Sonurinn í góðum höndum hjá Árna meðan Sara spilar með landsliðinu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sara Björk Gunnarsdóttir, Árni Vilhjálmsson og sonur þeirra Ragnar Frank.
Sara Björk Gunnarsdóttir, Árni Vilhjálmsson og sonur þeirra Ragnar Frank. INSTAGRAM/@SARABJORK90

Sara Björk Gunnarsdóttir segist hafa átt kost á því að taka son sinn með í verkefnið með íslenska landsliðinu. Hann verði hins vegar hjá föður sínum í Frakklandi á meðan því stendur.

Sara er aftur komin í íslenska landsliðið eftir rúmlega árs fjarveru vegna barnsburðar. Hún eignaðist sitt fyrsta barn, soninn Ragnar Frank, um miðjan nóvember á síðasta ári.

Á blaðamannafundi landsliðsins í gær var Sara spurð að því hvort sonur hennar væri með í ferðinni.

„Venjulega væri hann velkominn í þessa ferð en pabbi hans fékk að vera með hann á meðan ég fór í ferðina,“ sagði Sara. „Hann er í góðum höndum í Rodez í Frakklandi með pabba sínum.“

Faðir Ragnars er Árni Vilhjálmsson, leikmaður Rodez í frönsku B-deildinni. Árni gekk í raðir liðsins frá Breiðabliki í janúar á þessu ári. Hann hefur leikið átta leiki með Rodez og skorað tvö mörk.

Sara byrjaði aftur að spila með Lyon, einu besta liði heims, í síðasta mánuði. Hún hefur komið við sögu í þremur leikjum með Lyon, tveimur í frönsku úrvalsdeildinni og einum í Meistaradeild Evrópu.

Íslenska landsliðið mætir því hvít-rússneska í Belgrad á morgun. Eftir hann halda íslensku stelpurnar svo til Tékklands þar sem þær mæta heimakonum í algjörum lykilleik í undankeppni HM 2023.

Ísland er í 2. sæti C-riðils undankeppninnar með níu stig eftir fjóra leiki. Tékkland er í 3. sætinu með fimm stig eftir fjóra leiki. Íslendingar unnu Tékka, 4-0, í fyrri leik liðanna á Laugardalsvelli. Liðin mættust svo aftur á SheBelieves Cup í Bandaríkjunum í febrúar. Þar vann Ísland 1-2 sigur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×