Innlent

#mínarbuxur: Gamlar hugmyndir um hvernig alvöru nauðgun lítur út

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Steinunn segir viðhorf dómarans gamaldags. 
Steinunn segir viðhorf dómarans gamaldags.  vísir

Karlmaður á þrítugsaldri var sýknaður af ákæru um kynferðisbrot í vikunni. Dómurinn hefur vakið mikla reiði og komið af stað bylgju á samfélagsmiðlum en fólki þykir dómarinn velta því þar upp hvort konan hafi verið í of þröngum buxum til að brotið hafi getað átt sér stað.

At­vikið átti sér stað árið 2019. Konan segir manninn hafa haldið sér fastri og nauðgað sér, hún frosið en í­trekað beðið hann um að hætta.

Dómurinn hefur vakið mikla at­hygli og er það helst orða­lag og rök­stuðningur dómarans sem vekur reiði al­mennings.

„Við heildar­mat á fram­burði brota­þola eru á­kveðin at­riði sem stinga í augun. Fyrir það fyrsta hefur brota­þoli aldrei lýst því hvernig á­kærði klæddi hana úr öllum fötunum en fyrir liggur að hún var í upp­háum leður­buxum. Þær buxur voru ekki ljós­myndaðar af lög­reglu og liggur því ekkert fyrir um út­lit þeirra og hversu auð­velt eða erfitt var að klæðast úr þeim.“

segir í dómnum.

Klæðaburður brotaþola skipti ekki máli

„Þetta með buxurnar - þetta er svona saga sem maður er búinn að heyra aftur og aftur. Ég man fyrir nokkrum árum þá varð allt brjálað er­lendis út af ná­kvæm­lega sama dæmi þar sem að kona þótti vera í of þröngum galla­buxum til að vera nauðgað. Og við þekkjum bara enda­lausar sögur um klæðnað brota­þola og að hann skipti í raun og veru ein­hverju máli. Hann gerir það ekki,“ segir Steinunn Gyðu- og Guð­jóns­dóttir, tals­kona Stíga­móta.

Þetta varð kveikja að nýrri bylgju á sam­fé­lags­miðlum þar sem fjöldi kvenna birti myndir af buxum sínum undir milli­merkinu #mínar­buxur, þar á meðal þing­maður Sam­fylkingarinnar.

Steinunn telur að fræða þurfi dómara landsins betur um kyn­ferðis­of­beldi.

„Ég held að þetta kannski byggi á ein­hverjum gömlum hug­myndum um hvernig al­vöru nauðgun eigi að líta út. Ein­hver hug­mynd um það að brota­þoli eigi að vera að streitast á móti allan tímann og sé að segja nei og að fatnaðurinn geti ein­hvern veginn varið brota­þolann gegn nauðguninni,“ segir Steinunn.

Var mál­flutningur mannsins talinn trú­verðugri en konunnar vegna þess að mál­flutningur hennar hélst ekki alveg stöðugur í gegn um allt ferlið.

„En ef maður þekkir eitt­hvað til á­falla­við­bragða og á­falla­streitu í kjöl­far nauðgunar þá eru þetta ó­sann­gjarnar og ó­raun­hæfar kröfur,“ segir Steinunn.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×