Fótbolti

Snýr aftur á völlinn sem hann dó næstum því á

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Christian Eriksen í leiknum fræga gegn Finnlandi sem þar sem hann fór í hjartastopp.
Christian Eriksen í leiknum fræga gegn Finnlandi sem þar sem hann fór í hjartastopp. getty/Friedemann Vogel

Í kvöld spilar Christian Eriksen í fyrsta sinn á Parken í Kaupmannahöfn síðan hann fór í hjartastopp á vellinum í leik Danmerkur og Finnlands á EM í fyrra. Hann verður fyrirliði danska liðsins í leiknum gegn Serbíu í dag.

Eriksen hné niður í leik Dana og Finna á Parken 12. júní 2021 en var endurlífgaður. Í kjölfarið var gangráður græddur í hann. Eriksen mátti ekki spila með gangráðinn á Ítalíu og fékk sig því lausan frá Inter.

Daninn gekk svo í raðir Brentford og lék sinn fyrsta leik eftir hjartastoppið þegar liðið tapaði fyrir Newcastle United, 0-2, í lok febrúar.

Eriksen var valinn aftur í danska landsliðið á dögunum og lék sinn fyrsta landsleik frá hjartastoppinu þegar Danmörk tapaði fyrir Hollandi, 4-2, í vináttulandsleik á föstudaginn. Hann kom inn á sem varamaður og skoraði með sinni fyrstu snertingu.

Í dag, 290 dögum eftir hjartastoppið, snýr Eriksen aftur á völlinn þar sem hann dó næstum því í fyrra. Og hann verður fyrirliði Danmerkur í leiknum í dag.

Hinn þrítugi Eriksen hefur leikið 110 landsleiki og skorað 37 mörk.

Leikur Danmerkur og Serbíu hefst klukkan 16:00 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×