Fótbolti

Ítalskir sóðar: Skildu sígarettustubba, matarleifar og flöskur eftir í klefanum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Eins og sjá má var umgengni ítalska liðsins um búningsklefann á vellinum í Palermo ekki til fyrirmyndar.
Eins og sjá má var umgengni ítalska liðsins um búningsklefann á vellinum í Palermo ekki til fyrirmyndar.

Leonardo Bonucci hefur beðist afsökunar á því hvernig ítalska landsliðið skildi við búningsklefa sinn eftir tapið fyrir Norður-Makedóníu, 0-1, í umspili um sæti á HM í Katar.

Evrópumeistararnir töpuðu afar óvænt fyrir Norður-Makedóníumönnum á fimmtudaginn og verða þar af leiðandi ekki með á öðru heimsmeistaramótinu í röð. Norður-Makedónía mætir Portúgal í úrslitaleik um sæti á HM í kvöld.

Það vantaði ekki bara ýmislegt upp á inni á vellinum hjá Ítölum heldur einnig þegar kom að umgengni um klefann þeirra á Stadio Renzo Barbera í Palermo.

Myndir úr klefa ítalska liðsins rötuðu á samfélagsmiðla og óhætt er að segja að sjónin hafi ekki verið fögur. Allar ruslatunnur voru yfirfullar og sígarettustubbar, matarafgangar og flöskur lágu á víð og dreif um klefann.

„Þetta voru stór mistök. Næst vöndum við okkur betur. Við vorum mjög vonsviknir og héldum að svona smáatriði skiptu stundum ekki máli. Við biðjumst afsökunar og gerum betur í næstu leikjum,“ sagði Bonucci. Ítalska knattspyrnusambandið hefur einnig beðið Palermo afsökunar á umgengni liðsins.

Ítalska liðið mætir því tyrkneska í vináttulandsleik í Konya í Tyrklandi í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×