Fótbolti

Eriksen sneri aftur með marki

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Falleg stund.
Falleg stund. vísir/Getty

Christian Eriksen er mættur aftur til leiks með danska landsliðinu í fótbolta, 287 dögum eftir atvikið hræðilega á EM í fótbolta síðasta sumar.

Eriksen hneig þá niður á vellinum í leik Danmerkur og Finnlands og kom síðar í ljós að hjarta hans hafði hætt að slá.

Þessi þrítugi Dani samdi við enska úrvalsdeildarliðið Brentford í vetur og var svo í leikmannahópi Danmerkur í kvöld þegar liðið heimsótti Holland í vináttulandsleik á Johan Cruyff leikvanginn í Amsterdam. Það er heimavöllur Ajax sem er einmitt það félag sem Eriksen hóf sinn glæsilega feril hjá.

Leiknum lauk með 4-2 sigri Hollendinga þar sem Steven Bergwijn (2), Nathan Ake og Memphis Depay voru á skotskónum en það var Eriksen sem stal senunni.

Honum var skipt inná í leikhléi og hafði aðeins verið inn á vellinum í rúma mínútu þegar hann skoraði eftir góða fyrirgjöf Andres Skov Olsen. 

Hitt mark Dana skoraði miðvörðurinn stóri og stæðilegi, Jannik Vestergaard.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×