Fótbolti

Rapinoe: Hættulegt fyrir fótboltakarla að koma út úr skápnum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Megan Rapinoe hefur tekið slaginn fyrir svo margt, þar á meðal jöfn réttindi knattspyrnukvenna og réttindi samkynhneigðra í fótboltanum.
Megan Rapinoe hefur tekið slaginn fyrir svo margt, þar á meðal jöfn réttindi knattspyrnukvenna og réttindi samkynhneigðra í fótboltanum. Getty/Jeff Kravitz

Bandaríska knattspyrnukonan Megan Rapinoe skilur vel af hverju svo fáir samkynhneigðir fótboltakarlar hafi þorað út úr skápnum ólíkt því sem er hjá knattspyrnukonunum.

Rapinoe ræddi stöðu samkynhneigðra karla sem vilja spila fótbolta á hæsta stigi í þætti landsliðskvennanna Pernille Harder og Magdalenu Eriksson á Sky Sports sem heitir The HangOUT.

Þær Pernille og Magdalena eru par, spila saman hjá Chelsea en svo með sitthvoru landsliðinu því Harder er fyrirliði danska landsliðsins og Eriksson er lykilmaður í því sænska.

„Allir þeir sem koma að íþróttaheiminum verða að átta sig á því að þau bera ábyrgð á því sem þau segja og þau verða að passa upp á það að búa til umhverfi sem er tekur vel á móti öllum og er opið,“ sagði Megan Rapinoe.

Hún er á því að það sé í raun hættulegt fyrir fótboltakarla að koma út úr skápnum því það muni kalla á miklar afleiðingar fyrir þá og þeirra feril.

„Við fáum alltaf spurninguna af hverju eru ekki fleiri samkynhneigðir menn í afreksíþróttum? Það er af því að þeim finnst þeir ekki vera öruggir. Þeir óttast það að fá svívirðingar frá aðdáendum, þeim verði hent út liðinu sínu eða að það verði gert lítið úr þeim,“ sagði Rapinoe.

„Það er miklu öruggara fyrir konur að koma út úr skápnum. Þar er mikil samhugur á milli okkar og þeirra sem koma út og það gerir þetta svo miklu auðveldara fyrir alla. Ég vil segja við alla, frá íþróttastjórum til eiganda, frá stuðningsmönnum til leikmanna, að þetta er þeirra ábyrgð líka,“ sagði Rapinoe.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×