Leikur Lyon hrundi eftir rautt spjald Carpenter: Sjáðu mörkin og helstu at­vik

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Agnese Bonfantini fagnar því sem reyndist sigurmark kvöldsins.
Agnese Bonfantini fagnar því sem reyndist sigurmark kvöldsins. Marco Luzzani/Getty Images

Juventus vann 2-1 sigur á Lyon í 8-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í fótbolta í kvöld. Lyon var með pálmann í höndunum en Ellie Carpenter fékk rautt spjald í liði Lyon og heimakonur nýttu liðsmuninn til hins ítrasta. Landsliðsfyrirliðinn Sara Björk Gunnarsdóttir sat allan tímann á bekk Lyon í kvöld.

Gestirnir frá Frakklandi byrjuðu betur í Tórínó í kvöld en Lyon komst yfir eftir aðeins átta mínútna leik. Bandaríski miðjumaðurinn Catarina Macario með markið eftir sendingu Selmu Bacha.

Reyndist það eina mark fyrri hálfleiks en gestirnir voru hársbreidd frá því að bæta við marki. Frábær varnarleikur kom í veg fyrir það og átti það eftir að reynast heldur betur mikilvægt.

Gestirnir voru þó í toppmálum er liðin gengu til búningsherbergja í hálfleik, staðan 1-0 þeim í vil og Lyon með öll völdin á vellinum. Það virtist slíkt hið sama vera upp á teningnum í síðari hálfleik, það er þangað til þegar rúmur klukkutími var liðinn. 

Ellie Carpenter, miðvörður Lyon, leyfði boltanum að skoppa upp í loft og ætlaði svo að rekja hann í átt að eigin marki.

Í kjölfarið stakk framherji Juventus sér inn fyrir Carpenter sem endaði með því að rífa leikmann heimaliðsins niður og þó hún væri rúmlega 40-45 metra frá marki þá fékk hún beint rautt spjald fyrir að brjóta á leikmanni sem var sloppin ein í gegn.

Í kjölfarið tók Juventus öll völdin á vellinum. Cristiana Girelli jafnaði metin eftir klaufagang í vörn gestanna og Agnese Bonfantini skoraði það sem reyndist sigurmarkið á 83. mínútu leiksins.

Þrátt fyrir gríðarlegan uppbótartíma tókst hvorugu liðinu að bæta við marki og Juventus leiðir því 2-1 fyrir síðari leik liðanna sem fram fer í Frakklandi eftir átta daga. 

Landsliðsfyrirliðinn Sara Björk spilaði 45 mínútur fyrir Lyon um liðna helgi en sat að þessu sinni allan tímann á varamannabekk liðsins. Hún er hægt og bítandi að komast í sitt gamla form eftir barnsburð.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira