Erlent

Einn handtekinn en ekki ljóst hvað átti sér stað

Fanndís Birna Logadóttir skrifar
Að minnsta kosti tveir nemendur voru fluttir á spítala. 
Að minnsta kosti tveir nemendur voru fluttir á spítala.  EPA/Johan Nilsson

Lögregla var með töluverðan viðbúnað við framhaldsskóla í Malmö í dag þar sem talið var að fjöldi nemenda hafi slasast. Að því er kemur fram í frétt sænska ríkisútvarpsins SVT liggur ekki fyrir hvað átti sér stað við skólann. Aftonbladet hefur það eftir heimildum sínum að ungur maður vopnaður exi og hníf hafi verið að verki en lögregla hefur ekki gefið neitt út. 

Rickard Lundqvist, upplýsingafulltrúi lögreglunnar í Malmö, segir lögreglu hafa fengið tilkynningu frá skólanum, Malmö Latin, klukkan 17:12 að staðartíma og að fjöldi nemenda hefði slasast. Lögregla hefur nú gefið það út að tveir hafi særst og þeir fluttir á spítala.

Þá sagði hann að um yfirstandandi atburð væri að ræða sem lögregla mat alvarlegan. Lögregla segist nú hafa náð stjórn á vettvangi og að fleiri byggingar í kring hafi verið tryggðar. 

Einn var handtekinn en lögregla vill ekki gefa upp hvort fleiri liggi undir grun, né fyrir hvað sá sem var handtekinn er grunaður um. 

Nemendur sem SVT ræddi við segir lögreglumenn hafa komið vopnaða inn í skólann og flutt þá í burtu en þeir fengu ekki upplýsingar um hvað hafi átt sér stað. Um ellefu hundruð nemendur stunda nám við skólann og er lögregla nú að störfum þar. 

Einn nemandi sagðist hafa séð blóðuga einstaklinga á sjúkrabörum fyrir utan. Frederik Hammensjö, rektor skólans, segir í samtali við Aftonbladet að svo virðist sem einhverjir hafi látist en hann er sjálfur ekki á staðnum. Hann er nú á leiðinni til Malmö frá Gautaborg.  

Uppfært 21:14:

Lögregla hefur ekki enn gefið út hvað kom fyrir við skólann en þeir sem særðust voru að sögn lögreglu ekki nemendur. Aftonbladet segir að samkvæmt heimildum þeirra hafi ungur maður gengið inn í skólann vopnaður exi og hníf og ráðist á viðstadda. Lögregla mun halda áfram að yfirheyra nemendur sem voru á staðnum í kvöld og fram á nótt. 

Skólinn var rýmdur í kjölfarið og nemendur beðnir um að fara heim. EPA/Johan Nilsson
Lögregla var með talsverðan viðbúnað á svæðinu. EPA/Johan Nilsson
Rúmum klukkutíma eftir að tilkynningin barst gaf lögregla út að þeir hafi náð stjórn á vettvangi. EPA/Johan Nilsson


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×