Innlent

Loka í Kópavogsskóla vegna myglu

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Hluta skólans verður lokað vegna myglu.
Hluta skólans verður lokað vegna myglu. Kópavogsbær

Hluta Kópavogsskóla verður lokað frá og með morgundeginum vegna myglu. Nemendur skólans í 6. og 7. bekk verða heima á morgun en aðrir nemendur mæta í skólann. Í kjölfarið verður húsnæði sem áður hýsti bæjarskrifstofur Kópavogsbæjar nýttur undir kennslu.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Kópavogsbæ. Þar segir að hluti Fannborgar 2, sem áður hýsti bæjarskrifstofurnar, verði nýttur undir kennslu líkt og gert var þegar rýma þurfti Kársnesskóla vorið 2017. Nemendur 6. til 10. bekkjar, sem eru um 170 talsins, muni mæta þangað, en ekki kemur fram hversu lengi sú ráðstöfun varir, þó stefnt sé að því að framkvæmdum í skólanum ljúki áður en skóli verður settur aftur í haust.

„Farið var í víðtæka sýnatöku í miðálmu Kópavogsskóla eftir að mygla greindist í einni stofu í janúar síðastliðnum og lá niðurstaða sýnatökunnar fyrir síðdegis í gær.

Þrálát lekavandamál hafa verið á suðurhlið Kópavogsskóla og eru rakaskemmdir frá fyrri tíð komnar í ljós en tvö ár eru síðan suðurhliðin var einangruð að utan. Framkvæmdir hefjast eins fljótt og auðið er og er stefnt að því að þeim verði lokið áður en skóli hefst á ný í ágúst,“ segir í tilkynningu bæjarins.

Viðgerðir muni felast í því að múrhúð og einangrun innanvert á suðurhlið skólans verði fjarlægð, yfirborð steinsteypu hreinsað, einangrað og múrhúðað upp á nýtt. Þá verði gólfefni í öllum stofum endurnýjuð, bæði á suðurhlið skólans og þar sem vart hefur orðið við raka við skil útbyggingar á norðurhlið.

Þá segir að fundað hafi verið með starfsfólki skólans í dag og það upplýst um stöðu mála, eins hafi upplýsingum verið komið áleiðis til foreldra barna í skólanum, sem telur alls um 390 börn á öllum grunnskólastigum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×