Fótbolti

Xavi: Konurnar í Barcelona hafa sett viðmiðið fyrir karlaliðið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alexia Putellas, fyrirliði kvennaliðs Barcelona, lyftir bikarnum en til hliðar er Xavi sem hefur hrósað kvennaliðinu mjög mikið.
Alexia Putellas, fyrirliði kvennaliðs Barcelona, lyftir bikarnum en til hliðar er Xavi sem hefur hrósað kvennaliðinu mjög mikið. Samsett/AP

Xavi Hernandez talar vel um kvennalið Barcelona sem um helgina tryggði sér spænska meistaratitilinn með því að vinna 5-0 sigur á erkifjendum sínum í Real Madrid.

Barcelona hefur þegar tryggt sér titilinn og tekið við bikarnum þótt að liðið eigi enn eftir að spila sex leiki. Þetta er þriðja árið í röð sem Barca-stelpurnar verða meistarar og þær unnu líka Meistaradeildina á síðustu leiktíð.

Þær hafa unnið alla 24 leiki sína á tímabilinu í spænsku deildinni og markatalan er 136-6. Nú hafa þær unnu 38 leiki í röð í öllum keppnum.

Xavi, sem er þjálfari karlaliðsins, ræddi árangur og spilamennsku kvennaliðs félagsins á blaðamannafundi og hrósaði bæði fótboltanum sem liðið spilar en einnig hvernig þær eru áfram hungraðar í árangur þrátt fyrir að hafa unnið þrennuna á síðustu leiktíð.

„Undanfarin ár hefur kvennaliðið okkur verið að sýna hvernig við eigum að gera þetta með því hvernig þær spila, hvernig þær keppa og með hungri sínum í árangur þrátt fyrir að vinna allt á síðasta ári,“ sagði Xavi.

„Við höfum verið að fylgjast með þeim og það er undravert að sjá þær spila. Þeir eru að leiða félagið á sama hátt og Draumaliðið gerði á sínum tíma og liðið hans Pep [Guardiola] gerði seinna. Þær eru viðmiðið fyrir karlaliðið,“ sagði Xavi.

Draumaliðið er nafnið á Barcelona-liðinu sem spilaði undir stjórn Johan Cruyff í byrjun tíunda áratugarins en það vann fjóra Spánarmeistaratitla í röð og fyrsta Evrópubikar félagsins.

Undir stjórn Guardiola þá var Barcelona-liðið mjög sigursælt frá 2008 til 2012. Liðið vann þrjá Spánartitla, Meistaradeildina tvisvar sinnum og náði að vinna sex titla árið 2009.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×