Fótbolti

Svein­dís Jane skoraði tvö og Wolfsburg komið á toppinn

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Sveindís Jane skoraði tvö mörk í kvöld.
Sveindís Jane skoraði tvö mörk í kvöld. INSTAGRAM/@SVEINDISSS

Sveindís Jane Jónsdóttir skoraði tvö mörk í sínum fyrsta deildarleik í þýsku úrvalsdeildinni. Hún skoraði fyrstu tvö mörk Wolfsburg sem vann öruggan 5-1 útisigur á Köln í kvöld.

Wolfsburg átti ekki í miklum vandræðum með Köln í kvöld. Sveindís Jane kom gestunum yfir eftir rétt rúmar tuttugu mínútur og bætti hún við öðru marki sínu rúmlega tíu mínútum síðar. 

Staðan orðin 2-0 og Sveindís Jane komin með sín fyrstu mörk í þýsku úrvalsdeildinni. Hún sagðist vera mætt til að skora mörk og segja má að hún hafi staðið við gefin loforð.

Tabea Wassmuth bætti við þriðja marki Wolfsburg fyrir lok fyrri hálfleiks og staðan því 3-0 í hálfleik. Sveindís Jane var tekin af velli í hálfleik, ekki hefur komið fram að um meiðsli sé að ræða eða bara einfaldlega ákvörðun þjálfarans.

Wassmuth bætti við öðru marki sínu áður en Köln minnkaði muninn í 4-1 á 69. mínútu leiksins. Jill Roord skoraði svo fimmta mark Wolfsburg í uppbótartíma leiksins, lokatölur 5-1 og þægilegur sigur gestanna staðreynd.

Með sigri kvöldsins fer Wolfsburg á topp deildarinnar með 38 stig, stigi meira en Íslendingalið  Bayern München.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×