Fótbolti

Óli Kristjáns: PSG er svolítill plastklúbbur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Neymar og félagar í PSG eru úr leik í Meistaradeildinni og nú dugði ekki einu sinni að ná í Lionel Messi.
Neymar og félagar í PSG eru úr leik í Meistaradeildinni og nú dugði ekki einu sinni að ná í Lionel Messi. AP/Manu Fernandez

Gærkvöldið var ekki kvöld franska stórliðsins Paris Saint Germain sem enn á ný mistókst að fara alla leið í Meistaradeildinni. Nú ekki lengra en í sextán liða úrslitin.

Meistaradeildarmörkin á Stöð 2 Sport 2 fóru yfir stórleik Real Madrid og Paris Saint Germain sem Real menn unnu 3-1 og þar með 3-2 samanlagt.

„Það verður erfitt að toppa leikinn í kvöld, í svona drama, tilfinningum og öðru slíku,“ sagði Ólafur Kristjánsson, sérfræðingur Meistaradeildarmarkanna.

„Þetta Meistaradeildarævintýri PSG er að bíða hnekki enn einu sinni,“ sagði Ólafur en það er óhætt að segja að franska félagið hafi sett mikinn pening í að vinna loksins Meistaradeildina.

Kjartan Atli Kjartansson, umsjónarmaður Meistaradeildarmarkanna kom með nokkur dæmi þar sem PSG hefur klúðrað niður góðri stöðu eins og á móti Barcelona og Manchester United svo eitthvað sé nefnt. Þessi leikur var enn eitt dæmið um það.

„Það eru allt mismunandi knattspyrnustjórar og þjálfarar sem eru með liðið. Maður spyr sig því hvort að þetta sé í DNA klúbbsins,“ spurði Kjartan Atli.

„Heldur þú að það sé eitthvað DNA í klúbbnum,“ svaraði Ólafur á móti.

„Ég er ekki viss um það að það sé eitthvað DNA í klúbbnum. Þú finnur það stundum þegar þú kemur inn í sveitta búningsklefa að það er eitthvað þarna. Ég hef það á tilfinningunni að það sé ekki þannig hjá PSG,“ sagði Ólafur.

„Þetta er svolítill plastklúbbur ef maður getur sagt sem svo. Hann er byggður í kringum gríðarlega mikið fjármagn og því er ausið í þennan klúbb. Það á að gera allt í krafti fjármagns til að ná í þennan stóra titil. Það hefur ekki tekist ennþá og það held ég að sé ákveðin blessun fyrir okkur sem eru örlitlir rómantíkerar í fótboltanum,“ sagði Ólafur.

Það má finna alla umræðuna hér fyrir neðan.

Klippa: Umræða um PSG eftir enn eitt Meistaradeildarklúðrið



Fleiri fréttir

Sjá meira


×