Innlent

Handtekinn og í fjögurra vikna varðhald

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Myndband af árásinni hefur verið í dreifingu á samfélagsmiðlum.
Myndband af árásinni hefur verið í dreifingu á samfélagsmiðlum.

Karlmaður á þrítugsaldri hefur verið handtekinn í tengslum við rannsókn lögreglu á stunguárás í miðbæ Reykjavíkur aðfaranótt laugardags. Hann hefur þegar verið úrskurðaður í fjögurra vikna gæsluvarðhald.

Einar Guðberg Jónsson, lögreglufulltrúi á höfuðborgarsvæðinu, segir að karlmaðurinn hafi verið handtekinn í dag. Rætt hafi verið við einhvern fjölda af fólki við rannsóknina en aðeins einn handtekinn.

Tvítugur karlmaður var stunginn endurtekið fyrir utan Club 203 við Ingólfstorg aðfaranótt laugardags. Móðir fórnarlambsins lýsti því í samtali við fréttastofu að hann hefði lent í smávægilegum útistöðum við hóp manna fyrr um kvöldið. Það mál hefði verið talið úr sögunni þegar hópurinn sneri aftur.

„Þeir koma svo að honum og segja já þetta var hann. Og byrja svo að króa hann af og láta höggin dynja á honum. Hann átti sér ekki von, einn fór fyrir framan hann og einn fyrir aftan hann. Hann heldur að það sé bara verið að berja hann svona fast í bakið. Nei, þá var bara búið að stinga hann sex sinnum,“ sagði Alda við fréttastofu á sunnudag.

Myndband af árásinni má sjá að neðan.

Karlmaðurinn var úrskurðaður í gæsluvarðhald í Héraðsdómi Reykjavíkur á grundvelli rannsóknar- og almannahagsmuna. Í tilkynningu segir að rannsókn miði vel en að ekki sé hægt að veita frekari upplýsingar.


Tengdar fréttir

Myndband sýnir árásina í miðbænum um helgina

Tvítugur íslenskur karlmaður varð fyrir alvarlegri stunguárás við Ingólfstorg í miðbæ Reykjavíkur aðfaranótt laugardags. Myndband af árásinni er komið í dreifingu á samfélagsmiðlum og má sjá í spilaranum að ofan. Andlit hlutaðeigandi hafa verið afmáð.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×