Innlent

Furðar sig yfir fjarveru kvenna í viðræðum um frið

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Pia Hansson, forstöðumaður Alþjóðamálastofnunar, segir nauðsynlegt að hafa konur við samningaborðið.
Pia Hansson, forstöðumaður Alþjóðamálastofnunar, segir nauðsynlegt að hafa konur við samningaborðið.

Pia Hansson, forstöðumaður Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands, furðar sig á því að konur hafi ekki aðkomu að friðarviðræðum sendinefnda Rússlands og Úkraínu.

„Maður horfir á þessar myndir og það er eins og maður fari aftur í tímann um tugi ára. Það er ekki nokkur einasti kvenmaður við borðið og ég hefði haldið að ef við ætluðum að ræða af einhverju viti um frið sem eigi að haldast að þá sé nauðsynlegt að konur komi að því borði. Þetta er mjög karllæg mynd sem við sjáum núna og ekkert nema karlmenn sem sitja við þetta borð.“

Alþjóðasamfélagið hefur haft í frammi fordæmingar og gripið til harðra refsiaðgerða gegn Rússum. Mikið hefur farið fyrir ákalli um að veita Úkraínumönnum liðstyrk og vopn en öllu minna um að finna leiðir til friðar. Pia var í hádegisfréttum Bylgjunnar spurð hvort hún teldi að friður ætti minna upp á pallborðið í umræðunni í kjölfar innrásarinnar. Þess má geta að Höfði friðarsetur er hluti af Alþjóðamálastofnun HÍ.

„Auðvitað vonar maður að það fari að koma að umræðu um frið en á meðan lætin eru eins og þau eru núna, ástandið er svona skelfilegt, og enginn bakkar þá er mjög erfitt að sjá fyrir sér að það sé hægt að taka næsta skref því þegar menn setjast við samningaborðið og ræða málin almennilega þá þarf að vera einhver vilji til að mætast báðu megin og ég er ekki viss um að sú staða sé enn komin upp,“ segir Pia sem bendir á að brýnt sé að halda öllum samskiptalínum opnum til að hægt sé að nema hvort og þá hvenær augnablik friðar kemur.

Innrásin hafi komið sérfræðingum í opna skjöldu

Pia telur að ein af ástæðunum fyrir því að viðbrögðin jafn sterk og raun ber vitni sé að innrásin hafi komið fjölmörgum sérfræðingum í opna skjöldu.

„Það sem er sérstakt við þessa innrás er hvernig hún kom flestum á óvart sem hafa þótt stúderað Pútín og Rússland mikið. Menn héldu frekar að hann væri með blekkingarleik í gangi; að stuða fólk og hóta en ekki að hann myndi framkvæma. Þess vegna held ég líka að viðbrögðin verði svona sterk því fólki er svo brugðið við að hann fari svona fram og ætli sér alla leið.“

Skilur að NATÓ stígi varlega til jarðar

Fjölmargir Úkraínumenn með Vólódimír Selenskí í broddi fylkingar eru forviða yfir ákvörðun forsvarsmanna Atlantshafsbandalagsins um að grípa ekki til loftferðabanns yfir Úkraínu. Pia var spurð hvað henni fyndist um ákvörðunina en framkvæmdastjóri NATÓ bar því við í gær að slíkt inngrip NATÓ myndi hafa í för með sér miklu alvarlegri afleiðingar.

„Maður skilur alveg hvaðan þeir koma og að hvaða leyti þeir hafa áhyggjur af því að stíga fastar inn í einhvers konar aðgerðir gegn Rússum. Það gæti haft svo skelfilegar afleiðingar. Afleiðingarnar sem við sjáum núna eru auðvitað skelfilegar en þær verða ennþá meiri ef NATÓ fer í stríð við Rússland því þá erum við að tala um ástand sem er svo margfalt, margfalt stærra og erfiðara en það sem við erum að horfa upp á núna.“


Tengdar fréttir

Rússar herða á­rásir sínar og refsingar á eigin þegnum

Rússar hafa haldið árásum sínum á borgir í Úkraínu áfram síðasta sólarhringinn og náðu stærsta kjarnorkuveri Evrópu á sitt vald í morgun. Hægt verður að dæma fólk í allt að fimmtán ára fangelsi fyrir að deila upplýsingum um stríðið sem ekki eru rússneskum stjórnvöldum þóknanlegar samkvæmt nýjum lögum.

Flugbann ekki í kortunum hjá NATO

Leiðtogar Atlantshafsbandalagins ætla ekki að setja á flugbann yfir Úkraínu. Þetta tilkynnti Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, nú fyrir skömmu en málið var til umræðu eftir ítrekuð áköll ráðamanna í Úkraínu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×