Innlent

Vill breyta Garðastræti í Kænugarðsstræti

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Sendiráð Rússlands í Reykjavík.
Sendiráð Rússlands í Reykjavík.

Eyþór Laxdal Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, mun í dag leggja fram tillögu í skipulagsráði borgarinnar þess efnis að nafnanefnd verði falið að breyta heiti Garðastrætis í Kænugarðsstræti.

Frá þessu greindi Eyþór á Facebook í gær.

„Með þessu væri verið að minna á tengsl Íslands og Úkraínu en Kiev, höfuðborgin hefur löngum verið kölluð Kænugarður,“ segir borgarfulltrúinn í færslunni. 

Þess ber að geta að sendiráð Rússlands í Reykjavík stendur við Garðastræti.

Erlendis hafa komið fram áþekkar hugmyndir; um að breyta heitum á þeim götum þar sem sendiráð Rússlands hafa verið til húsa til að heiðra Úkraínu og ögra Rússum í leiðinni. 

Þetta mun ekki vera í fyrsta sinn sem slíkar hugmyndir eru settar fram eða framkvæmdar en árið 2018 samþykkti borgarráð Washington D.C. að breyta nafninu á götunni þar sem sendiráð Rússlands var til húsa til minningar um stjórnarandstæðinginn Boris Nemtsov, sem var skotinn til bana í Moskvu árið 2015.

Þá breyttu Tyrkir heitinu á götunni þar sem sendiráð Sameinuðu arabísku furstadæmana var til húsa sama ár og nefndu hana í höfuðið á herforingja Ottómanveldisins sem utanríkisráðherra SAF hafði gagnrýnt á Twitter.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.