Erlent

Hart barist í Karkív eftir að rússneskar hersveitir lenda í borginni

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Eyðilegging blasir nú víða við í Karkív.
Eyðilegging blasir nú víða við í Karkív. epa/Sergey Kozlov

Rússneskar hersveitir lentu í Karkív um klukkan 3 í nótt og harðir bardagar standa nú yfir milli þeirra og úkraínska hersins. Úkraínsk yfirvöld greindu frá því í nótt að ráðist hefði verið á hersjúkrahús í borginni og að bardagar hefðu brotist út á milli „innrásarhermanna og úkraínskra varnaraðila“.

Um það bil 1,5 milljón manns búa í Karkív, sem hefur verið umkringd í marga daga og árásir gerðar á íbúðahverfi. Þá létust að minnsta kosti sex þegar ráðist var á ráðhús svæðisins samkvæmt Guardian en talið er að skotflaug hafi verið notuð til verksins.

Margir Úkraínumenn segja árásina á ráðhúsið til marks um það að innrás Rússa snúist ekki eingöngu um að ráðast gegn hertengdum skotmörkum heldur einnig um að brjóta á bak aftur baráttuanda þjóðarinnar. 

Ráðhúsið stendur á Frelsistorgi; stærsta torgi Úkraínu sem er jafnframt miðpunktur borgarlífsins.

Hin 64 km langa hergagnalest Rússa sækir enn að Kænugarði og þá sætir Maríupol stöðugum árásum. Guardian greinir einnig frá því að rússneskar hersveitir hafi náð útjöðrum Kerson í suðurhluta landsins.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×