Fótbolti

Úrslitaleikurinn tekinn af Rússum og færður Frökkum

Sindri Sverrisson skrifar
Chelsea á titil að verja í Meistaradeildinni eftir að hafa tryggt sér sigurinn á Drekavöllum í Portúgal í fyrra.
Chelsea á titil að verja í Meistaradeildinni eftir að hafa tryggt sér sigurinn á Drekavöllum í Portúgal í fyrra. Getty

Knattspyrnusamband Evrópu, UEFA, ákvað í dag að stærsti leikur tímabilsins, úrslitaleikur Meistaradeildar karla, yrði færður frá Pétursborg í Rússlandi til Parísar í Frakklandi.

New York Times greinir frá þessu og segir að þetta hafi verið ákveðið sem refsing vegna innrásar Rússa inn í Úkraínu.

Úrslitaleikurinn fer fram 28. maí og átti að fara fram á leikvangi í Pétursborg sem var byggður sérstaklega fyrir HM, og fjármagnaður af rússneska orkurisanum Gazprom sem er einnig stór bakhjarl UEFA.

Þess í stað fer leikurinn fram á Stade de France, þjóðarleikvangi Frakka, en þetta verður í fyrsta sinn frá árinu 2006 sem að úrslitaleikur Meistaradeildarinnar fer fram í landinu.

UEFA hefur einnig ákveðið að færa alla leiki í sínum keppnum sem fara áttu fram í Rússlandi eða Úkraínu. Sem stendur hefur það aðeins áhrif á einn félagsliðaleik – næsta heimaleik Spartak Moskvu í Evrópudeildinni.

Það verður svo að koma í ljós hvort að FIFA, alþjóða knattspyrnusambandið, fylgir fordæmi UEFA en í mars eiga Rússar að spila á heimavelli í umspili um sæti á HM í Katar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×