Fótbolti

Sif Atla: Þetta er ákveðið áreiti sem við erum ekki vanar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sif Atladóttir og félagar í íslenska landsliðinu voru skrefinu á eftir þeim bandarísku í nótt. Hér hefur Mallory Pugh komist framhjá Sif.
Sif Atladóttir og félagar í íslenska landsliðinu voru skrefinu á eftir þeim bandarísku í nótt. Hér hefur Mallory Pugh komist framhjá Sif. Getty/Robin Alam

Íslenska landsliðskonan Sif Atladóttir er á því að íslenska kvennalandsliðið hafi lært mikið af stóra skellinum á móti heimsmeisturum Bandaríkjanna í úrslitaleik SheBelieves Cup í nótt.

„Það er erfitt að spila við lið sem beitir svona skyndisóknum á okkur en þetta er jákvætt upp á framtíðina,“ sagði Sif Atladóttir í viðtali á samfélagsmiðlum KSÍ.

„Við erum að fara í undankeppni HM og svo í lokakeppni EM og ég held að við lærum mjög mikið af þessum leik þótt að þetta særi svona fyrst eftir leikinn,“ sagði Sif.

„Þetta er í fyrsta sinn sem við erum á þessu móti og ég held að Steini hafi sagt það fyrir mót að það væri mjög mikilvægt fyrir okkur að fara inn í leiki þar sem það eru áhorfendur og aðeins meira umstang í kringum þetta. Við vitum að Bandaríkjamenn kunna að gera þetta að ákveðnum hátíðarhöldum þegar kemur að liðinu þeirra,“ sagði Sif.

„Þetta er ákveðið áreiti sem við erum ekki vanar á þessum tímapunkti. Það er því mjög mikilvægt fyrir komandi verkefni fyrir HM og svo lokakeppnina í sumar. Það verður rosamikið áreiti þar þannig að ég held að allt í kringum þetta sé frábær undirbúningur,“ sagði Sif.

„Það má heldur ekki gleyma að því að liðin hér eru á pari við liðin sem við erum að fara að mæta. Þetta er góður lærdómur en auðvitað vildum við vinna bikarinn af því að hann var í boði. Þegar við greinum þennan leik þá verður þetta leikurinn sem við lærum mest af,“ sagði Sif.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×