Innlent

Létta á reglum um ein­angrun og smit­gát fyrir starfs­menn

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Tæplega fimm hundruð starfsmenn spítalans eru nú frá vinnu í einangrun.
Tæplega fimm hundruð starfsmenn spítalans eru nú frá vinnu í einangrun. vísir/vilhelm

Land­spítalinn hefur nú tekið fyrsta skref í átt að því að reyna að leysa mönnunar­vanda vegna fjölda smitaðra starfs­manna. Fram­vegis mega þrí­bólu­settir og ein­kenna­lausir starfs­menn spítalans mæta til vinnu beint eftir fimm daga ein­angrun.

Hingað til hefur starfs­fólk spítalans sem smitast þurft að vera frá vinnu í sjö daga þrátt fyrir að það sé ein­kenna­laust. Eftir fimm daga ein­angrun tekur nefni­lega við tveggja daga smit­gát þar sem ekki má um­gangast við­kvæma hópa.

Spítalinn hefur nú á­kveðið að þeir starfs­menn sem séu ein­kenna­litlir og hita­lausir í alla­vega 24 klukku­stundir megi mæta til vinnu beint eftir ein­angrunina og taka tveggja daga smit­gátina út við störf sín. Þeir verða þó að bera fí­n­efna­grímu og sýna aukna var­úð í um­gengni við sjúk­linga.

Þetta á að­eins við um þrí­bólu­setta starfs­menn eða tví­bólu­setta, sem eru einnig með stað­festa fyrri Co­vid-sýkingu.

„Þetta var bara eðli­legt næsta skref. Þetta er það sem við höfum verið að horfa til. Núna var rétti tíminn til að gera þetta og sjáum við á næstu dögum hverju þetta skilar,“ segir Hildur Helga­dóttir, verk­efna­stjóri far­sótta­nefndar spítalans í sam­tali við Vísi.

Hildur Helgadóttir er verkefnastjóri farsóttanefndar Landspítala.vísir/sigurjón

Enginn skikkaður í vinnu

Spítalinn hefur átt í gríðar­legum erfið­leikum með að manna vaktir síðustu vikur vegna fjölda starfs­manna sem eru í ein­angrun. Þeir eru til dæmis 472 í dag. Það er um sjö prósent alls starfs­fólks spítalans.

Til tals hefur komið að kalla ein­kenna­lausa starfs­menn bein­línis úr ein­angrun til að manna vaktirnar en spítalinn hefur sagt að það verði al­gjört neyðar­úr­ræði sem verði vonandi hægt að komast hjá.

Hildur vonast til að breytingin muni bæta stöðuna eitt­hvað en segir al­ger­lega ó­mögu­legt að reyna að giska á hversu mikil á­hrif hún muni hafa.

„Við rennum al­gjör­lega blint í sjóinn með þetta. En þó það væri ekki nema helmingurinn af þessum sem eru í ein­angrun sem myndi skila sér tveimur dögum fyrr í vinnu þá eru það sam­tals rúm­lega fjögur hundruð vinnu­dagar,“ segir Hildur. Það létti aug­ljós­lega mjög mikið undir með spítalanum.

Það verður al­ger­lega upp á starfs­fólkið sjálft komið að á­kveða hvort það treysti sér til að mæta á vaktina beint eftir ein­angrun.

„Það verður enginn kallaður í vinnu. Þetta verður að frum­kvæði starfs­mannanna sjálfra.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×