Innlent

And­hverfur í veðrinu gætu leikið lands­menn grátt

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Veðrið mun ekki leika við landsmenn í dag.
Veðrið mun ekki leika við landsmenn í dag. Vísir/Vilhelm

Óveðrið sem skellur á landsmönnum í dag og í nótt er tvíþætt. Suðaustan illviðri sem byrjar að herja á landið síðdegis nær hámarki í kvöld. Í nótt mætir hins vegar andhverfa þess á svæðið, skyndilegur suðvestan hvellur.

Appelsínugul veðurviðvörun er í gildi fyrir allt landið í kvöld og eitthvað fram eftir nóttu. Veðrið er tvíþætt. Fyrst gengur suðaustan illviðri yfir landið í kvöld og í nótt, veðrið versnar fyrst sunnanlands. 

„Það hlánar dálítið meira í þessu. Það blotnar bara strax í dag, bara mjög fljótlega núna á Suður- og Vesturlandi þannig að það gæti nú flætt sums staðar. Ég held að það væri mjög snjallt núna að athuga með niðurföll,“ sagði Haraldur Ólafsson, veðurfræðingur í Bítinu á morgun um veðrið.

Rigningin sem fylgir suðaustanáttinni mun þó væntanlega breyttast í slyddu eftir því sem líður á kvöldið.

„Þessi lægð er dálítið öðruvísi sem oftast er, því það heldur ekki áfram að hlýna alveg þangað til að vindurinn gengur niður. Strax í kvöld gæti alveg kólnað aftur án þess að vindurinn sé genginn niður. Það gæti verið slydda í rokinu í kvöld,“ sagði Haraldur.

Suðaustanáttin trekkir sig í gang, suðvestanáttin kemur skyndilega

Suðaustanáttin mun byggja upp taktinn frá og með seinniparti dagsins.

„Þessi suðaustanátt sem kemur núna er þannig að það hvessir smám saman allan daginn. Svo nær hún hámarki í kvöld skömmu fyrir miðnætti og dettur svo snögglega niður,“ sagði Haraldur.

Appelsínugular viðvaranir verða í gildi á landinu öllu í kring um miðnætti í kvöld.Veðurstofa Íslands

Suðvestanóveðrið sem tekur við og skellur á Suðurlandi í nótt og á Vesturlandi fyrripartinn á morgun mun haga sér öðruvísi.

„Vestanáttin sem kemur á eftir er andhverfan. Hún kemur mjög snögglega inn. Það getur hvesst mjög mikið frá nánast hægviðri í ofsaveður á hálftíma, jafn vel skemmri tíma,“

„Hún er að sumu leyti svolítið hættulegri fyrir þá sem eiga ekki von á henni. Svo gengur hún hægt niður. Þetta er ekki gengið almennilega niður fyrr en annað kvöld,“ sagði Haraldur.

Reikna má með slæmu veðri um allt land og allt útlit er fyrir að færð á vegum spillist.

„Þetta verður að jafnaði verst á Suður- og Vesturlandi en það verður slæmt fyrir norðan og austan líka.“


Tengdar fréttir

Appelsínugul viðvörun allsstaðar á landinu í kvöld

Verulega slæmu veðri er spáð á landinu öllu í kvöld og í nótt. Gul veðurviðvörun tekur vildi víða um land um miðjan daginn í dag en verður svo að appelsínugulri viðvörun þegar líður á kvöldið.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×